145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

störf þingsins.

[11:18]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það virðist vera hlaupinn einhver ótrúlega undarlegur skætingur í umræðuna um heilbrigðismál hér á landi. Hæstv. forsætisráðherra hefur tekið forustuna í þeim efnum í samkeppni við mjög marga aðra sigurstranglega leikmenn með nýrri grein í Fréttablaðinu í morgun þar sem hann gerir því skóna að ákveðinn læknir í samfélaginu, Kári Stefánsson, sé toppari. Kári skrifaði gagnmerka og skorinorða grein um að það væri þjóðarskömm hvernig við höguðum framlögum til heilbrigðismála hér á landi. Ég er sammála honum um það. Það er skömm að því.

Það er eitt sem hæstv. forsætisráðherra má ekki komast upp með síendurtekið og það er það, þótt ekki væri annað, að fullyrða að framlög til spítalans hafi aldrei verið meiri. Hæstv. forsætisráðherra virðist vera að tala um það án þess að taka tillit til verðlags. (Gripið fram í: Nei.) Auðvitað eigum við að tala um framlög til spítalans á föstu verðlagi. Staðreyndin er einfaldlega sú að framlög til spítalans í ár eru 7% lægri á föstu verðlagi en þegar þau voru mest, árið 2008.

Við getum skoðað alls konar aðrar tölur í þessu efni. Sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkissjóðs eru framlög til spítalans 22% lægri en þau voru 2003. Spítalinn hefur einfaldlega (Gripið fram í.) búið (Gripið fram í.) við langvarandi (Forseti hringir.) niðurskurð í rekstri. (Gripið fram í.) Og sem hlutfall af þjóðarframleiðslu erum við með mun lægri útgjöld til spítalans eða til heilbrigðismála almennt heldur en í (Forseti hringir.) Skandinavíu. Og í fjárfestingum í innviðum í heilbrigðisþjónustu (Gripið fram í.) erum við næstlægst af OECD-ríkjum, aðeins Mexíkó er lægra en við. Auðvitað er skömm að því. Auðvitað eigum við að geta talað um þessar tölur án þess að vera í einhverjum skætingi. Ef Kári Stefánsson er toppari finnst mér löngu tímabært að segja að (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra sé botnari. Hann finnur sífellt lægra plan (Forseti hringir.) til að fara á með umræðuna.


Efnisorð er vísa í ræðuna