145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

störf þingsins.

[11:21]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að ég hef sífellt meiri áhyggjur af vinnubrögðunum á þingi. Nú erum við að afgreiða fjárlagafrumvarp í þriðja skipti á kjörtímabilinu og við höfum bætt við einum mánuði til að ríkisstjórnin hafi meira svigrúm. Við lendum ítrekað í því að bíða eftir breytingartillögum ríkisstjórnarinnar.

Ég er svo hissa á því að fjárlagafrumvarpið sé ekki nokkurn veginn fullbúið þegar það er lagt fram, að menn séu ekki búnir að móta stefnu og viti nokkurn veginn hvernig línurnar liggja. Við erum að fara að samþykkja frumvarp, eigum eftir að samþykkja það endanlega, um opinber fjármál þar sem við þurfum að beita einhverjum allt öðrum vinnubrögðum og allt annarri hugsun í langtímastefnumótun. Hvernig ætlum við að gera það ef við getum ekki afgreitt ein lítil fjárlög fyrir eitt ár nema með þeim ruglingi sem er hér í gangi?

Við fáum 10 milljarða á milli umræðna í breytingartillögum. Það er ekki lítið og ég hef áhyggjur af þessu. Væntanlega leggur ríkisstjórnin ekki fram alveg fullbúið frumvarp vegna þess að meiri hlutinn þarf að hafa einhvern jólapakka þannig að menn séu með eitthvert svigrúm til að breytingartillögur geti komið frá meiri hlutanum, en þetta eru engin vinnubrögð.

Ég er hissa á þessu og ég hef áhyggjur af því að við séum í rauninni bara ekkert í færum til að fara yfir í nýtt kerfi sem kallar á mikinn aga, stefnumótun og miklu meiri fyrirsjáanleika ef þetta eru vinnubrögðin. Ég leyfi mér að fullyrða að það sé búið að samþykkja fjárlög annars staðar á Norðurlöndunum. Það er töluvert síðan ég heyrði að Danmörk hefði samþykkt sín fjárlög fyrir 2016. Svo eru menn hér eitthvað að tala um (Forseti hringir.) næturfundi og annað. Auðvitað eigum við að ræða fjárlögin í björtu, það er bara þannig.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna