145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

störf þingsins.

[11:23]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að vekja athygli á samstöðu- eða hvatningarfundi sem er hér fyrir utan þar sem öryrkjar og ellilífeyrisþegar hvetja okkur til að samþykkja breytingartillögu minni hlutans við fjáraukalögin varðandi greiðsluuppbót frá 1. maí. Mér finnst þau eiga þetta skilið, ekki síst út frá jafnræðis- og jafnréttissjónarmiðum þar sem líta ætti á þeirra aur sem laun. Við eigum ekki að vera með einhver önnur lög eða önnur lögmál um bætur en laun þar sem þetta er oftast eina framfærsla þeirra, jafnvel allt þeirra líf.

Afturvirk launagreiðsla eða uppbót hjá þessum þjóðfélagshópi mundi skipta sköpum fyrir hann, það mundi gera það að verkum að margir gætu haldið mannsæmandi jól svona einu sinni. Það var ein kona fyrir utan sem spurði hvort hún mætti halda jólin hjá mér, einfaldlega af því að hún treysti sér ekki til þess að halda jólin sjálf. Þannig er staðan hjá mörgum þessara öryrkja og ellilífeyrisþega. Þetta er mjög hart. Fyrir utan viðhorfið sem við höfum til bótaþega, það er alveg hræðilegt, það er eins og þau hafi gert eitthvað af sér. Auðvitað eigum við að breyta hugarfarinu og hvernig við komum fram við þennan þjóðfélagshóp. Þessi 50, 100 eða 150 þús. kr. eingreiðsla, þetta eru ekki háar upphæðir, gæfi þessum þjóðfélagshópi tækifæri til að halda mannsæmandi jól.

Eins og skáldið sagði, og ég vona að núverandi ríkisstjórn muni ekki sætta sig við það: „Vont er þeirra ránglæti, verra þeirra réttlæti.“ Leyfum þessu ekki að gerast.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna