145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

störf þingsins.

[11:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við tölum oft eins og himnaríki sé annars staðar á Norðurlöndunum. Ég hef komið þangað og ég fullyrði að það er ekki rétt. Hins vegar getum við lært mikið af þeim og við erum hérna að reyna að fóta okkur í umhverfi í ríkisfjármálum sem tekur mið af því sem gengið hefur vel þar. Það er rétt sem hér hefur komið fram, okkur vantar svolítið á að komast þangað, í það minnsta í umræðunni.

Ég veit ekki hvernig umræðan er í þjóðþingum annarra landa hvað þetta varðar og ég efast um að það sé jafn gott og við teljum að það sé þegar við tölum um það hér. Ég treysti því í það minnsta að menn séu meira að ræða um stærri hlutina og heildarmyndina, séu að taka mið af breytingum í nánustu framtíð sem við þekkjum en við gerum hér. Ég vona að þeir aðilar sem tala með þessum hætti fylgi því eftir í verki því að til dæmis erum við ekkert að ræða hér um forgangsröðun varðandi fjármálin, hvergi sparnað svo neinu nemi. Hv. stjórnarandstaða kemur með ófjármagnaðar útgjaldatillögur og það vita allir sem vilja vita það að stjórnmálamaður sem setur milljarða í aukið skatteftirlit sem tekjur er með ófjármagnaðar tillögur, svo einfalt er það. Ég tala nú ekki um auknar arðgreiðslur.

Það er meira að segja gert tortryggilegt, og ég skal bara gangast við því að ég beitti mér fyrir því, að fjármálaráðuneytið kæmi fram með upplýsingar sem eru grunnurinn að ákvörðunum sem teknar voru og við þekkjum, þannig að það væri eins skiljanlegt og mögulegt er. Við vitum að um flókið mál er að ræða. Af hverju? Vegna þess að ég held að það sé miklu betra að ræða málin út frá staðreyndum og menn hafi þekkinguna, en út frá tilfinningum. Það er bara mín einlæga skoðun.

Það var mjög gott að fá fulltrúa eldri borgara og öryrkja á fund hv. fjárlaganefndar. Þau fluttu mál sitt mjög málefnalega, skýrt og vel. Þar er stórt verkefni og kannski er þessi mánuður farinn í eitthvert popúlískt karp til og frá. (Forseti hringir.) En við verðum að fara að klára vinnuna í Péturs Blöndals-nefndinni og vinna málefnalega að því að breyta þessu fyrirkomulagi þannig að við náum þeim árangri sem við erum öll sammála um. Það gerum við ekki í því andrúmslofti sem hér er í dag.


Efnisorð er vísa í ræðuna