145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:09]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef eins og svo margir aðrir áhyggjur af því hvað gerist en ég er kannski heldur ekki sá sérfræðingur að ég geti nákvæmlega útlistað hvað það er.

Landspítalinn er ákaflega flókin stofnun sem hefur búið við mjög mikinn niðurskurð síðustu ár, að mörgu leyti mjög takmarkaða innviði eins og í húsnæði o.s.frv., eða húsnæði sem eldist og nýtt húsnæði kemur ekki. Þannig að ég hef áhyggjur af því, eins og við höfum heyrt stjórnendur spítalans segja, að það sé verið að reka starfsemina eins vel og hægt er og hún sé á þeim stað að vera mjög viðkvæm.

Ég hef beinlínis áhyggjur af því að ef við stöndum okkur ekki í stykkinu fari viðkvæm starfsemi illa, aðstaða starfsfólks komi niður á starfseminni og geti orsakað starfsmannaflótta o.s.frv.