145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:16]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu hér áðan. Hann nefndi það og orðaði það á þann hátt að honum fyndist lítið breytast í meðförum þingsins á fjárlagafrumvarpi og umræðu hér í þingsal, og reyndar ekkert breytast í raun og veru.

Ég er ekki alveg sammála því því að hér urðu talsverðar breytingar á síðasta kjörtímabili í góðu samkomulagi þvert á flokka, m.a. með breytingu á þingskapalögum sem gerðu að verkum að fjárlagafrumvörp komu fyrr fram, með breytingu á þingskapalögum sem juku ábyrgð minni hluta í nefndum, með breytingum í fjárlaganefnd varðandi safnliði og fleira til að koma í veg fyrir tilviljanakenndar úthlutanir á peningum hingað og þangað. Um þetta var ágætt sátt og ég held að þingmenn úr öllum flokkum hafi talað fyrir þessu á sínum tíma. Þannig að það náðist að setja þetta í betra form.

Það er hins vegar rétt, sem þingmaðurinn segir, að upplifunin er sú að það hafi ekkert breyst, þ.e. þetta er að fara aftur í sama farið. Umræðan dregst, það dregst að málið komi úr nefnd, það er aftur farið að dreifa peningum með einhverjum óskilgreindum hætti út úr safnliðum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvað hann telji að þurfi til að negla þessar breytingar einhvern veginn niður. Því að við virðumst vera sammála um að það þurfi að breyta þessu, að þetta þurfi að vera betra.