145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:19]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hef velt þessu mikið fyrir mér, hvers vegna við náum ekki að þokast betur áfram. Það hefur ýmislegt gerst, við skulum ekki neita því. Það gerðist margt í þessa veru í kjölfar hrunsins af því að fólk fór að hugsa öðruvísi, áttaði sig á því að hér var hræðilegt óskipulag. Það var meira og minna allt í klessu, öll fjárlagagerð, eftirlit með fjárlögum o.s.frv. var í skötulíki. Það hefur breyst sem betur fer.

En vinnulagið hér virðist einhvern veginn leita í sama farið, þ.e. ósiðirnir finna sér farveg innan nýju reglnanna, innan nýju laganna sem við setjum okkur sjálf í þessu markmiði og að því er virðist í ágætri sátt. Kannski dugar það bara ekki að setja okkur lög og reglur um hvernig við eigum að vinna, en það skapar þó ákveðin skilyrði fyrir því að við (Forseti hringir.) gerum betur hvað þetta varðar.

Ég óska þess auðvitað að þegar fjárlagafrumvarp kemur fram á næsta hausti verði þetta með öðrum hætti, en mér þykir allt benda til þess að svo verði ekki.