145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:23]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Hann kastar mörgum boltum á loft og ég er ekki viss um að ég nái að svara þeim öllum. Hann talar um eftirlitsstofnanirnar, sem hann kýs að kalla svo, og verður tíðrætt um. Þessar stofnanir eru sumar hverjar, eins og matvælaeftirlit og svo framvegis, verkefni sem við höfum haft mjög lengi og teljum mjög mikilvægt að sinna vel. Aðrar stofnanir, eins og til dæmis Fjármálaeftirlitið, hafa vissulega verið styrktar en það er kannski hluti af þessum viðbrögðum og þessum aga sem við lærðum af hruninu og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem sýndi fram á hve skaðleg lausatök og lítið eftirlit gætu verið. Það kom aldeilis í ljós 2008 og 2009 að skortur á eftirliti og aga kostaði þetta samfélag alveg gríðarlega mikið.