145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:21]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil freista þess, kannski af veikum mætti, að vera málefnalegur í minni pólitík en ef ég hef gerst sekur um einhvers konar skeytasendingar í hita leiksins biðst ég afsökunar á því.

Hv. þingmaður spyr um það samráðsverkefni að sækja um aðild að ESB. Mér finnst koma fram merkilegur munur á viðhorfum mínum og hv. þingmanns. Ég lít á spurninguna um hvort við eigum að gerast aðilar að ESB sem spurningu sem þjóðin á að taka afstöðu til á grunni bestu upplýsinga. Það er samráðsferlið, það að búa til samning og fá hann upp á borðið. Svo mundi ég væntanlega tala fyrir því að við gerðumst aðilar á grunni þessa samnings vegna þess að ég hef þá trú að hann verði góður. Aðrir tala gegn því. Þetta (Forseti hringir.) kallast lýðræði og samráð og ég hugsa að það sé hluti af kergjunni sem ég rakti og greindi í ræðu minni, fólk hefur verið svipt þeim rétti að fá að taka afstöðu til þessa stóra máls.