145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé kergja út af þessu, akkúrat vegna þess að það er búið að halda röngum upplýsingum að fólki. Ég fullyrði að engin þjóð, í Evrópu eðli málsins samkvæmt, hafi haft stjórnmálamenn sem voga sér að blekkja fólk með þessum hætti. Allir vita hvað felst í því að vera í ESB. Við erum búin að gera mjög góðar úttektir á því. ESB er til og engin þjóð hefur sótt um aðild að ESB til að kanna hvað er í gangi. Íslenskir stjórnmálamenn og jafnvel menn í fræðasamfélaginu sem vilja fara í ESB halda því miskunnarlaust að fólki. Ég hvet ykkur til að reyna að útskýra fyrir útlendingi að við höfum sótt um aðild að ESB til að kanna hvað væri í boði. Það sem við gerðum var að við breyttum lögum, við fórum inn í rýniskýrsluna til að sjá hvað nákvæmlega væri tiltekið að við þyrftum að gera. Við þurftum að tímasetja hvernig við ætluðum að gera það til að fara í þetta ferli. Svo leyfa menn sér að koma hér upp — það er enginn vafi að þetta er kergja sem er komin til vegna þess (Forseti hringir.) að síðan er sagt við fólk: Það er verið að taka af þér ákveðinn rétt, það gera þeir stjórnmálamenn sem þora ekki að segja hvað felst í því að vera í ESB og segja þá af hverju þeir vilja ganga í ESB.

Það er umræða sem við skulum taka en ekki blekkja fólk með þeim hætti sem þið eruð að gera núna.