145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

frumvarp um útvarpsgjald.

[14:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórn Íslands er rúin stuðningi víða, en svo rammt kveður að því að ríkisstjórnin virðist ekki styðja sína eigin ráðherra. Að minnsta kosti hefur það verið þannig um margra mánaða skeið að hæstv. menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, hefur verið að reyna að ná fram máli í gegnum ríkisstjórnina sem hún styður hann ekki einu sinni sjálf í. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur komið fyrir fjárlaganefnd og boðað þinginu að ráðherra hans, ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Illugi Gunnarsson, muni flytja frumvarp á þessu haustþingi um óbreytt útvarpsgjald.

Nú er 30. nóvember liðinn og nú er starfsáætlun þingsins úrelt og hér er ekkert frumvarp komið. Maður hlýtur að spyrja, virðulegur forseti: Er ekki kominn tími til þess fyrir ríkisstjórnina að íhuga stöðu sína þegar ekki bara fólkið í landinu er hætt að styðja hana, heldur er hún hætt að styðja sig sjálf og hætt að skila þeim frumvörpum sem hún sjálf hefur boðað hingað í þingið?