145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:19]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Í fyrstu ræðu minni um fjárlagafrumvarp næsta árs fór ég nokkuð ítarlega yfir það yfirbragð sem hefur verið á umræðunni af hálfu þingsins og þeirra sem hafa að mestu leyti unnið fjárlagafrumvarpið, þ.e. fjárlaganefndar og forustu fjárlaganefndar. Ég rökstuddi og rakti í allítarlegu máli að það hefði ekki verið beint glæsileg framganga og ekki glæsileg framkoma heldur af hálfu forustufólks fjárlaganefndar, ekki frekar en þeirra sem leiða ríkisstjórnina sem eiga satt best að segja undanfarna dagana og missiri í allundarlegu samtali við þjóð sína, sem snýst meira og minna um að hreyta ónotum í fólk í blaðagreinum líkt og forsætisráðherra gerir í dag í kostulegri og niðurlægjandi grein í Fréttablaðinu gagnvart einum einstaklingi. Ég held að það sé einsdæmi í sögu þessarar þjóðar að ráðherra í ríkisstjórn, þá tala ég um forsætisráðherra, skuli beita sér með þeim hætti sem um ræðir og ekki síður, eins og ég rakti í fyrstu ræðu minni, hvernig framkoma ákveðinna þingmanna, forustumanna í þinginu og fjárlaganefnd, er gagnvart stórum stofnunum og forstöðumönnum þeirra og starfsfólki, sem er nú orðið landsfrægt hvernig hefur verið. Allt er þetta mjög einkennilegt. Allt hefur þetta skaðað Alþingi. Ásýnd Alþingis er ekki góð. Þetta jaðrar við ofbeldi. Fólk sem rekur undirstofnanir og grunnstofnanir samfélagsins veit ekki á hverju það á von þegar stjórnarmeirihlutinn er annars vegar. Það er enginn trúnaður þar á milli lengur.

Ég rakti það líka í fyrstu ræðu minni hversu metnaðarlaust þetta fjárlagafrumvarp er hvað varðar ríkissjóð, að leggja núna fjórða árið í röð fram fjárlagafrumvarp og vonast til þess að fjárlög verði réttum megin við núllið, nánast á núlli á næsta ári — að af 700 milljarða kr. tekjum verði fjárlög vonandi rekin á núlli á næsta ári svo framarlega sem ríkissjóður fái arðgreiðslur úr Landsbankanum. Það er, held ég, ekki dæmi um jafn metnaðarlaust fjárlagafrumvarp á síðari tímum.

Nefndarálit meiri hlutans á að öllu jöfnu að gefa einhverja mynd og vísbendingu um viðhorf stjórnarþingmanna, þ.e. stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar í fjárlaganefnd og þingflokkanna því að allt fer í gegnum þingflokka til samþykktar eða synjunar, til fjárlaga og til þeirra málaflokka sem þeir hafa fjallað um og hvaða tök þeir hafa á verkefnunum sem þeir hafa tekið að sér og eiga að vera með fyrir hönd þingsins og eru með.

Nefndarálit meiri hlutans nú er að mínu mati eitt undarlegasta skjal sem hefur verið lagt fyrir Alþingi í háa herrans tíð. Það er svo lélegt að það er varla boðlegt að taka það til afgreiðslu eða umræðu þó að menn neyðist til að gera það því að úr öðru er ekki að moða. Það er í fyrsta lagi fullt af augljósum rangfærslum sem ég vonast til að verði lagaðar. Ég á ekki von á öðru en að fólk sýni sjálfu sér og þinginu og þjóðinni þann sóma að leggja fram texta sem er í það minnsta réttur og styðjist við réttar upplýsingar. Í textanum er hreinlega um villur að ræða á mörgum stöðum sem ég mun rekja hér á eftir. Í öðru lagi lýsir nefndarálitið því viðhorfi til ríkisfjármála að það eigi að vera lausatök á því. Það eigi að losa um aga á ríkisfjármálum, losa um tökin, fara í sama gamla farið og var hér árum og áratugum saman undir stjórn þessara sömu flokka og sáldra fé úr ríkissjóði með óskipulögðum hætti í ólíklegustu verkefni án þess að færð séu nein sérstök rök fyrir því eða það sé samkvæmt áætlunum eða plönum.

Ég ætla að fara yfir nokkur atriði úr nefndaráliti meiri hlutans. Á fyrstu síðunni í 2. málsgrein segir, með leyfi forseta:

„Afar ánægjulegt er að tekjur ríkisins aukast og þriðja árið í röð stefnir í hallalausan ríkisrekstur. Tekjuaukning hefur verið nýtt til þess að auka framlög til grunnþjónustu. […] nokkuð er í land með að hefja niðurgreiðslu skulda og vaxtakostnaður er áfram þriðji útgjaldasamasti málaflokkurinn […] Að áliti meiri hlutans er því full ástæða til að beita aðhaldi á gjaldahlið fjárlaga …“

Hvað segir þetta okkur? Hvað segir þessi texti okkur? Að stjórnarmeirihlutinn, þeir sem skrifa þennan texta, er nánast undrandi á því að tekjur ríkisins séu að aukast. Áttu menn von á öðru? Voru áætlanir uppi um annað? Voru einhverjar spár um það að tekjurnar mundu kannski minnka? Að sjálfsögðu aukast tekjurnar. Að sjálfsögðu eiga þær að aukast. Skattstofnarnir eru að stækka, atvinnulífið að eflast og skattkerfið var lagað til þannig að hægt væri að afla eðlilegra tekna þegar slíkt gerðist. Að sjálfsögðu er það þannig. Samt er undirstrikað í þessum texta að enn sé langt í land að hefja niðurgreiðslu skulda og ná vaxtakostnaði niður. Hvers vegna er svona langt í land með það núna? Fjórum árum eftir að ríkissjóði var skilað á núlli er enn langt í land með það af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar og stjórnarmeirihlutans að hægt sé að greiða niður skuldir og lækka vaxtakostnað, sem er þó höfuðmarkmiðið og hefur verið höfuðmarkmiðið með rekstri ríkissjóðs frá hruni. Þessu þurfa stjórnarliðar að svara. Þetta er yfirlýsing um algert metnaðarleysi og getuleysi við rekstur ríkissjóðs sem á að vera tiltölulega auðvelt verk núna miðað við það sem á undan er gengið.

Á fyrstu síðu nefndarálitsins er lýst yfir áhyggjum af þróun mála við lagasetningu þegar samþykkt eru ákvæði sem eru íþyngjandi fyrir rekstur sveitarfélaga eða stóraukið eftirlit á aðila á markaði án þess að fjármagn fylgi að sama skapi.

Í nefndaráliti meiri hluta segir, með leyfi forseta:

„Sérstaka umfjöllun er að finna um stefnumörkun samgönguframkvæmda, þróunaraðstoð og hafnarframkvæmdir.“

Skoðum það aðeins. Hvaða umfjöllun er um stefnumörkun samgönguframkvæmda í þessu frumvarpi? Ég hef satt best að segja lesið þetta nefndarálit nokkrum sinnum og gluggað í það á undanförnum dögum eða frá því að það var lagt fram. Það er engin stefnumörkun í þessu skjali. Það er hvergi að finna stefnumörkun í samgöngumálum í nefndaráliti meiri hlutans. Sé það einhvers staðar að finna óska ég eftir að þeir sem vita hvar það er komi hingað upp og segi mér það og vísi á hvar stefnumörkunin er. Það er verið að setja einhverja fjármuni í samgöngumál með mjög óskipulegum og óskilgreindum hætti án nokkurs rökstuðnings, einfaldlega vegna þess að það er ekkert plan í gangi. Það er engin samgönguáætlun til. Það er engin áætlun til af hálfu stjórnvalda um hvernig á að byggja upp samgöngumannvirki, vegi, brýr, flugvelli eða hafnir. Það á bara að gera það eftir hendinni, eftir því hvernig landið liggur þann daginn þegar menn ganga til vinnu sinnar í fjárlaganefnd. Það er ekkert plan, engin stefnumörkun.

Það sama á við um hafnarframkvæmdir. Það er verið að setja 400 milljónir í 11 verkefni í hafnarframkvæmdum, mjög óskilgreint, án nokkurs rökstuðnings og án nokkurrar áætlunar um uppbyggingu hafna. Það er verið að sletta milljón hingað og milljón þangað að því er virðist eftir því hvernig pólitískar línur liggja.

Stefnumörkun í þróunaraðstoð. Skoðum það aðeins betur. Hvað á fólk við með því? Alþingi samþykkti stefnumarkandi þingsályktun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands árið 2013. Hún átti að gilda til ársins 2016, þ.e. næsta fjárlagaárs, sem þetta frumvarp ætti að fjalla um. Það er ekkert fjallað um það hérna. Hvar er þessi stefnumörkun? Hvar er hana að finna? Getum við fengið að sjá hana eða er hún bara í einhverju tómarúmi þar sem menn geta gripið til þess sem þeim finnst henta hverju sinni?

Þingsályktunin var samþykkt á Alþingi með öllum greiddum atkvæðum gegn einu, atkvæði núverandi formanns fjárlaganefndar. Hún var eini þingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn áætlun um þróunaraðstoð af hálfu þingsins. Það segir sitt um það hvers vegna þessi óskaplega lélegi texti er í nefndarálitinu. Þingsályktunin sem Alþingi samþykkti og er í gildi kvað á um að fylgt yrði tímasettri áætlun um hækkun framlaga á gildistímanum, þ.e. til 2016. Á næsta ári, þ.e. því fjárlagaári sem við erum að ræða um, yrði því 0,42% af vergum þjóðartekjum varið til þróunarmála. Í þessu áliti og í tillögum ríkisstjórnar og stjórnarmeirihlutans er talað um helmingi lægri tölu, 0,21%. Svo er talað um stefnumörkun og að verið sé að ráðast í mikla útrás í þróunaraðstoð. Svo er í nefndarálitinu afar undarlegur texti til að reyna að réttlæta aumingjaskapinn og ræfilskapinn að geta ekki uppfyllt þingsályktunina sem Alþingi stóð á bak við, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að hlutfallið hefur ekki verið reiknað rétt“ — þ.e. hlutfall af þjóðartekjum — „þar sem stór hluti útgjalda vegna hælisleitenda ætti að flokkast sem þróunaraðstoð. Ef rétt er reiknað er hlutfall Íslands um 0,25% af þjóðartekjum og enn hærra ef verkefni Þróunarsjóðs EFTA sem snúa að flóttamönnum eru meðtalin.“

Hvað heldur þetta fólk um þróunaraðstoð? Heldur fólkið sem skrifaði þennan texta og lagði þessar tillögur hér fram að það geti hreinlega valið sér hvað er þróunaraðstoð og þau geti bara sagt: Nei, þetta er ekki rétt reiknað? Þau geti bara ákveðið að skutla einhverjum verkefnum inn í þróunaraðstoð og sagt: Nú hækkum við þetta bara upp í 0,25% — af hverju ekki 30? Heldur þetta fólk að hægt sé að taka bara einhver valin verkefni þar inn? Það er ákveðin skilgreining á bak við hvað er þróunaraðstoð. Undan henni verður ekki komist. Vilji menn bæta við það einhverju öðru er það annað mál. Menn geta ekki bara ákveðið það í nefndaráliti í fjárlaganefnd þingsins hvað sé þróunaraðstoð og hvað ekki. Það er ekkert sjálfval í því. Það er skilgreining á því, alþjóðleg viðurkennd skilgreining sem Ísland er skuldbundið af. Svo einfalt er það. Þá erum við að tala um helmingi lægri framlög af vergum þjóðartekjum til þróunaraðstoðar á næsta ári en segir í þingsályktuninni sem samþykkt var hér árið 2013 með einu mótatkvæði. (VigH: Segðu nú nafnið.) — Ég var búinn að segja nafn hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, sem lagðist gegn þróunaraðstoðinni og þingsályktuninni. Ég benti á það þegar þingmaður gekk í salinn að það væri kannski ástæðan fyrir þessum undarlega texta, að ætla sér að velja hvað væri þróunaraðstoð. Það er ekkert val um það. (Gripið fram í.) Það er ósköp skýrt hvað þróunaraðstoð er. (Gripið fram í.) Það á við um allar þjóðir og Ísland getur ekkert valið sér neitt sérstakt verkefni, eða þingmenn hvort sem þeir heita Vigdís Hauksdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson eða Björn Valur Gíslason geta ekkert breytt þeirri skilgreiningu. Þetta er það sem allar þjóðir fara eftir og framlögin ráðast af. Það er til skammar (Gripið fram í.) að þingmenn stjórnarmeirihlutans á Alþingi skuli ganga svo langt og viðurkenna í raun ræfildóm sinn við framlögin til þróunarmála að þeir reyni að fylla upp í kvótann með einhverjum óskilgreindum og óskyldum málum. Af hverju telja þeir ekki meira upp? Af hverju telja þeir ekki ekki fleiri atriði til að hækka töluna? Það liggur fyrir hver þróunaraðstoðin á að vera. Það liggur fyrir í fjárlagafrumvarpinu hver hún er. Það liggur fyrir skilgreining á því hvað þróunaraðstoð er. Það þýðir ekkert að setja eitthvað inn í texta líkt og gert er í nefndarálitinu til að reyna að breyta því.

Rangfærslur, ég ætla að byrja á að kalla þær mistök því að ég held að þær séu mistök, eru víða í frumvarpinu. Ég ætla að nefna tvö og þó að þau séu ekki stór gefa þau vísbendingar um hvers konar sleifarlag liggur að baki vinnu við nefndarálitið. Í fyrsta lagi varðandi Ríkisútvarpið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn vekur athygli á því að á næsta ári er áætlað að Ríkisútvarpið ohf. fái markaðar tekjur vegna útvarpsgjalds að fullu eins og alltaf var gert ráð fyrir þegar núverandi ríkisstjórn tók til starfa.“

Síðan kemur meinleg villa sem ég reikna með og vonast til að verði leiðrétt og skjalið prentað upp.

„Fyrri ríkisstjórn ákvað á sínum tíma að gjaldið næmi 16.400 kr. á hvern einstakling eða lögaðila.“

Þarna hafa verið gerð mistök. Menn hafa lesið vitlaust í ártöl og tölur hvað þetta varðar. Þetta hefur einhvern veginn sloppið í gegnum yfirlestur og gleymst að leiðrétta sem þarf auðvitað að gera. Breytingin sem var gerð á framlögum til Ríkisútvarpsins var samþykkt á Alþingi 20. desember 2013 vegna fjárlaga 2014. Þá var ákveðið að lækka útvarpsgjaldið niður í 16.400 kr. Þeirri tillögu greiddu allir núverandi stjórnarliðar, sem sátu þá í salnum, atkvæði sitt, þar á meðal fulltrúar í fjárlaganefnd. Þau lækkuðu útvarpsgjaldið en ekki aðrir. Það liggur fyrir. Þetta er algerlega klárt frá öllum bæjardyrum séð. Eins og ég sagði vonast ég sannarlega til að þetta verði leiðrétt. Ég ætla að ganga út frá því að þetta sé ekki vísvitandi gert, að þetta sé ekki vísvitandi rangfærsla, heldur hafi orðið mistök í textagerð og það verði bara lagfært.

Annan texta, sem hlýtur að flokkast sem mistök og hefur einhvern veginn sloppið í gegnum nálaraugu yfirlesara hjá forustufólki fjárlaganefndar, má finna á bls. 9. Það er mjög undarlegur texti sem ég reikna líka með að verði leiðréttur við uppprentun á skjalinu. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn hefur átt gott samstarf við stjórnendur Landspítalans á undanförnum árum …“

Þetta hljóta að vera mistök. Þetta hlýtur að vera afrit úr öðrum texta, kannski frá síðasta kjörtímabili, sem hefur verið límt óvart þarna inn og enginn gert sér grein fyrir því að þetta eru hin verstu öfugmæli sem eiga engan veginn við í þessu nefndaráliti. Ég ætla aftur að ganga út frá því að þarna sé um mistök að ræða en ekki vísvitandi ósannindi því að það hefur ekki farið fram hjá þjóðinni, ekki nokkrum einasta manni, hvílíkt alkul hefur orðið í samskiptum fjárlaganefndar og þings og ríkisstjórnar við stjórnendur Landspítalans. Þar á milli hafa ekki verið góð samskipti að undanförnu eða góð framkoma eða framganga, hvorki af hálfu þingmanna né ráðherra, eins og sjá má í fjölmiðlum í dag. Ég vonast auðvitað til að þetta verði lagfært og leiðrétt þegar skjalið verður prentað upp.

Síðan eru hérna tugir blaðsíðna sem ég hélt að væru að hverfa úr vinnu fjárlaganefndar þar sem er verið að deila út peningum í svokölluðum safnliðum eftir óskilgreindum aðferðum. Þetta er algerlega óskipulagt að öllu leyti og órökstutt og er inngangur inn í fortíðina líkt og var hér fyrir nokkrum árum og áratugum síðan. Þessir sömu flokkar geta engan veginn sætt sig við það, a.m.k. ekki Framsóknarflokkurinn, ég hef ekki fengið svar við því hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn lætur þetta yfir sig ganga, að ríkið sé rekið innan einhvers ramma samkvæmt reglum og það sé einhver agi á því hvernig farið sé með fjármuni. Þeim er það lífsins ómögulegt og sennilega eiga þingmenn þess flokks, þ.e. Framsóknarflokksins í þessu tilfelli, allt sitt pólitíska líf undir því að geta ráðstafað opinberum fjármunum með þeim hætti sem hér er verið að gera og þeir voru hvað þekktastir fyrir. Hvers vegna í ósköpunum Sjálfstæðisflokkurinn lætur sig hafa þetta er mér óskiljanlegt. Þetta er ekki í þeim anda sem sjálfstæðismenn hafa talað á undanförnum árum og áratugum og þeirrar stjórnar sem þeir vilja hafa á ríkisfjármálunum. Við því verður að fá svar.

Virðulegi forseti. Þetta nefndarálit er að mínu mati tæplega þingtækt. Það er svo illa skrifað, svo fullt af rangfærslum, það er svo mikil yfirlýsing um metnaðarleysi og getuleysi við að stjórna ríkisfjármálum að réttast væri að óska eftir því að það yrði kallað aftur inn til nefndar, (Forseti hringir.) það leiðrétt, rangfærslur hið minnsta, og menn reyndu að leggja aðeins betri vinnu í það áður en það kæmi fyrir þingið aftur.