145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður talaði hérna um stefnu í samgöngumálum sem var ekki að finna í nefndarálitinu, en í fyrri hluta frumvarpsins um stefnu og horfur er aftur á móti að finna smákafla um það. Það er í tengslum, að því er ég túlka, við opinber innkaup og rafræna stjórnsýslu sem útfærist í ljósleiðarasamskiptum. Ég tel það vera samskipta- og samgöngubót. Kannski að því leyti til finnst mér það vera góð stefnumörkun í því að ljósleiðaravæða landið. En annars vegar, alveg rétt, er ekkert að finna um neina vegi eða neitt svoleiðis nema atvinnuvegi í þessu fína riti um stefnu og horfur.

Það var líka eilítið sem hv. þingmaður nefndi um þróunarsamvinnuna sem ég væri til í að skerpa aðeins á. Ef hann gæti tekið stutt yfirlit á þann málaflokk úr ræðu sinni væri það vel þegið ef mér skyldi hafa misheyrst.