145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að mér finnst mjög dapurlegt að sóknaráætlun hafi hálfpartinn verið slegin út af borðinu, eða er bara í skötulíki miðað við það sem gert var ráð fyrir því að það var mikil ánægja með hana.

Það hefur verið þannig að þessir safnliðir sem fara undir ráðuneytin hafa að mörgu leyti gengið vel en við höfum líka upplifað það að ráðherrar eru að vísa málum til fjárlaganefndar eða til þingsins, málaflokkum sem við teljum að hafi verið komið fyrir hjá ráðuneytunum og þar eigi þetta faglega mat einmitt að fara fram.

Maður veltir því fyrir sér með hvaða hætti við eigum síðan að hafa eftirlit með því að þetta virki eins og til var ætlast í ráðuneytunum. Vissulega er þar fólk sem hefur völd, skulum við segja. Þó að ráðherra beri endanlega ábyrgð þá skiptir það líka máli að hafa tengingar inn í ráðuneytin. Þess vegna hefði ég kannski viljað stjórnsýsluna meira heim í hérað, til sveitarfélaganna, styrkja þau og efla til að allir þurfi ekki alltaf að sækja allt hingað inn í 101 Reykjavík.