145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef farið í andsvör við flesta þá hv. stjórnarandstæðinga sem hafa talað. Það er svolítið erfitt að fara í andsvör við hv. þingmann vegna þess að þetta gekk eiginlega allt út á persónulega upplifun hennar af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum og er hv. þingmaður sérstaklega upptekin af hæstv. forsætisráðherra Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Á sama tíma talar hv. þingmaður um að síðasta ríkisstjórn hafi ekki notið sannmælis.

Ég vil spyrja hv. þingmann að tvennu. Í fyrsta lagi: Er alveg við hæfi að vera að analísera einhverja, það er öllum ljóst að hv. þingmaður er ekki hrifin af stjórnmálamanninum hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni? En allt þetta: Ég er búin að læra málfræði, ég er með yfirbragð og eitthvað varðandi forustu fjárlaganefndar. Á þetta alveg við þegar við erum að ræða fjárlögin? Er þetta ekki meira eitthvað sem við ættum að ræða frammi á kaffistofu?

Síðan er það hitt. Ef hv. þingmanni finnst síðasta ríkisstjórn ekki hafa notið sannmælis, af hverju fer hún þá ekki yfir það sem búið er að gera í því þegar kemur að almannatryggingum og það sem farið hefur verið í sérstaklega í ellilífeyrinum og búið að taka úr (Forseti hringir.) tekjutryggingunni, [Hávaði á þingpöllum.] þá fjármuni sem þar hafa farið inn? Eins og hv. þingmaður veit vel er sama hvaða mælikvarða við tökum, þetta eru mjög háar upphæðir, tugir milljarða. Mér finnst (Forseti hringir.) að ef hv. þingmaður ætlaði að vera sjálfri sér samkvæm hefði hún átt að vísa til þess.