145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:45]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég tek undir þau orð hv. þingmanns að sú regla eigi að gilda að jafnaði að ef gagna hefur verið aflað fyrir opinbert fé eigi allur almenningur að njóta þeirra gagna.

Sú sem hér stendur stóð fyrir því í sinni tíð sem umhverfisráðherra að landupplýsingagögn yrðu gerð opinber án endurgjalds. Það skiptir gríðarlega miklu máli og var mikil innspýting í þróun og rannsóknir og alls konar nýsköpun á þeim vettvangi og gríðarlegur fjöldi verkefna hefur sprottið upp af því.

Ég er í prinsippinu sammála því sem hv. þingmaður nefnir þegar um er að ræða gögn sem eru til og hafa verið fjármögnuð af almannafé.

Hins vegar vil ég segja almennt að því er varðar íslenska tungu að hún er ekki bara eign okkar, hún er í raun eign mannkynsins þannig séð vegna þess að hún er menningarlegur kimi, tungumál sem talað er af tiltölulega fáum einstaklingum (Forseti hringir.) miðað við alheimsprósenturnar, og um leið og einmitt kannski (Forseti hringir.) þess vegna er hún verðmæt í sjálfu sér.