145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er sammála honum í því að mér finnst þetta vera „risky business“ af því að hann sletti áðan. Ég tel að við ættum að nýta þessa fjármuni hér heima, ekki veitir af eins og komið hefur fram í umræðunum. Hann talaði meðal annars um fleiri tæki en stýrivexti af því að þeir þyrftu að vera lægri til að það bitnaði ekki á þeim sem skulda. Svo talaði hv. þingmaður um innstæðutryggingarsjóðinn. Mig langar til að spyrja þingmanninn hvað það þýðir ef 4% eru greidd í ríkissjóð. Hefur hann ekki áhyggjur af því? Þá getur verið að ég hafi ekki náð utan um ræðuna hjá hv. þingmanni. Nú á þetta að vera einhvers konar ábyrgð ef eitthvað gerist og ég spyr: Hefur hann ekki áhyggjur af því að þetta fari bara í reksturinn og við verðum ekki tilbúin að taka á móti ef eitthvað kemur svo upp á af því að breyskir stjórnmálamenn verði kannski búnir að (Forseti hringir.) nýta fjármunina með einhverjum öðrum hætti?