145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:26]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Nú erum við kannski komin á svið sem fjallar um það sem rætt er í trúnaði innan Framsóknarflokksins. Ég held að það sé ekki mitt hlutverk að ræða það hér eða hvernig það lendir eða er rætt með öðrum hætti. Ég held að hér sé ákveðin málamiðlun eins og hv. þingmaður gerir sér fulla grein fyrir. Hún var að sjálfsögðu í þeim sporum sjálf fyrir ekki svo löngu síðan.

Það sem ég fjallaði um í ræðu minni var hvernig við gætum aukið það sem er til ráðstöfunar um 20–30 milljarða til þessara málaflokka. Ég er orðinn þreyttur á að ræða skiptingu þessarar köku, ég vildi ræða hvernig við stækkum hana án þess að auka skatta og án þess að draga úr þjónustu ríkisins, þvert á móti auka hana. Ég hefði gjarnan viljað ræða það efni við hv. þingmann.