145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég kem hingað í mína seinni ræðu. Í fyrri ræðu minni fór ég yfir nefndarálitið en nú langar mig að tala sérstaklega um nokkur mál.

Fyrsta málið sem ég vil fara yfir er kjör aldraðra og öryrkja. Við í fjárlaganefnd höfum farið yfir alls konar prósentutölur og milljarðasummur aftur á bak og áfram en það er alveg sama hvernig þeim málum er snúið. Samkvæmt tillögum stjórnarmeirihlutans, hv. þingmanna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, þá á að halda öryrkjum og öldruðum undir lágmarkstekjum.

Við vitum alveg að það eru ekki margir launamenn á lágmarkstekjum, en það á að halda hópnum sem verst er staddur undir lágmarkstekjum. Það gerir stjórnarmeirihlutinn vegna þess að honum finnst svo mikilvægt að fara algjörlega eftir bókstafnum í lögum um almannatryggingar, 69. gr. Í þeirri grein er tekið fram að bætur almannatrygginga eigi að hækka samkvæmt launaþróun í landinu eða samkvæmt neysluvísitölu eftir því hvort er betra eða hagfelldara fyrir aldraða og öryrkja.

Þeir sem sömdu þau lög og þeir hv. þingmenn, þáverandi, sem samþykktu þau gerðu það með það í huga að bæta og standa vörð um hag aldraðra og öryrkja. Núna þegar staðan er þannig í samfélaginu að nauðsynlegt var að hækka sérstaklega lægstu launin þá eru þessir hópar skildir eftir vegna þess að fara þarf eftir lögunum. Kalda lagahyggjan sem var svo mikið höfð hér uppi á árunum fyrir hrun er nú aftur aðalatriðið en ekki andi laganna. Andi laga um almannatryggingar er að standa vörð um fólk sem þarf á því að halda að hafa þetta stuðningsnet um sig. Það er enginn sómi að því að það eigi núna, þegar allir aðrir hópar samfélagsins hækka afturvirkt, að skilja þennan hóp eftir.

Nú hafa menn verið að takast á um prósentur, en ég held að það sé algjörlega kristaltært og ekki þurfi að þrasa um það að 9,7% er ekki það sama og 10,9%. Ef við tökum bara einfaldan prósentureikning sem við lærðum í barnaskóla, tökum tvo menn og þeir eru á sama stað með sömu laun eða lífeyri 31. desember 2014. Lífeyririnn hækkar um 3% 1. janúar 2015 en kaupið hækkar um 10,9% 1. maí 2015. Þannig að í fjóra mánuði er sá sem er á lífeyri 3% hærri en hinn sem þiggur lágmarkslaun. En síðan hækka lágmarkslaunin um 10,9% frá 1. maí. Sá sem er á lífeyri heldur bara áfram að vera á 3% hækkun út allt árið. Síðan koma 9,7% 1. janúar fyrir þann sem er á lífeyri, þá hækkar lífeyririnn meira. Þá er staðan orðin betri fram til 1. maí 2016 því að þá fær sá sem er á lágu laununum 5,9% hækkun til viðbótar en sá sem er á lífeyri ekki neitt og verður bara áfram á 9,7% út árið. Það sér hver maður að sá sem er á lífeyri kemur verr út úr þessu reikningsdæmi. Þarna er bara einfalt reikningsdæmi en ekki flókinn útreikningur á launavísitölu. En ef við tækjum hana þá var þróun launa á árinu 2014 meiri en 3,6%, frekar nær því að vera 6% og þróun launa á árinu 2015 meira en 3%, er nær því að vera 8%. Síðan er spáin fyrir 2016 enn betri. Því miður eru það þessir hópar sem koma illa út úr reikningsdæminu.

Minni hlutinn í fjárlaganefnd hefur beðið um upplýsingar sem við getum skoðað á tíu ára tímabili, til að skoða þróunina miðað við launavísitölu miðað við lágmarkslaun og ýmsa stöðu öryrkja til viðbótar. Ég á von á því að við fáum þetta allt saman áður en við förum í 3. umr. fjáraukalaga en þar mun minni hlutinn vera með breytingartillögu að nýju sem gengur út á að gera betur við aldraða og öryrkja en stjórnarmeirihlutinn treystir sér til að gera. Við munum færa fyrir því ítarleg rök af hverju það er sanngjarnt og réttlátt í framhaldsnefndaráliti sem dreift verður við umræðuna.

Frú forseti. Þegar minni hlutinn reiknaði út breytingartillögu sína vorum við með til viðmiðunar launabreytingar í kjarasamningi Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Flóabandalagsins. Þar er það þannig að við hækkun 1. maí árið í ár, 2015, um 10,9%, þá fara lægstu laun upp í 255 þús. kr. Síðan við hækkunin 1. maí 2016 fara lægstu laun upp í 270 þús. kr. En eins og allir þekkja kemur líka hækkun 2017 og svo 2018 og þá hafa lægstu laun náð 300 þús. kr. Þannig að lægstu laun á árinu 2016 verða 270 þús. kr.

En samkvæmt minnisblaði frá stjórnvöldum, ráðuneytinu, þá kemur fram að 9,7% hækkun þýðir að bætur einhleypings verða 246.902 kr. með heimilisuppbót á mánuði á árinu 2016. 246.902 kr. á meðan lágmarkslaunin verða 270 þús. kr. Þarna er ansi mikill munur. Hvorugt getur talist há laun og sannarlega erfitt og nánast ómögulegt nema við einhverjar sérstakar aðstæður að lifa af þeim.

Það er einkennilegt hvað stjórnarmeirihlutinn og hv. þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja sig mikið fram við að reyna að sannfæra okkur hin um að þetta sé góður díll. Að þetta sé eitthvað sem menn eigi að sætta sig við og sé bara sjálfsagt að gera í blússandi góðæri þar sem allt virðist vera á uppleið. Þá á að halda niðri hópnum sem veikast stendur og hefur minnsta möguleika til að auka við tekjur sínar. Þetta er auðvitað til skammar. Enn þá hef ég þá von að fleiri hv. þingmenn stjórnarliðsins, fleiri en hv. þm. Ásmundur Friðriksson, skipti um skoðun, því að sannarlega er ástæða til þess og undir því liggja sanngirnis- og réttlætisrök.

Eins og ég sagði áðan munum við í minni hlutanum fara betur yfir þetta allt saman fyrir 3. umr. fjáraukalaga. Síðan er aftur ástæða til að ræða þetta við umræðuna um fjárlögin, sem við erum að taka núna, og eins við 3. umr.

En það er annað stórmál og það er staða Landspítalans og vandi Landspítalans sem er ekki leystur hvorki í fjárlagafrumvarpinu né í tillögum meiri hlutans. Ég vil leyfa mér að vitna í tvo virta menn sem hafa skrifað um stefnu stjórnvalda þegar kemur að heilbrigðismálum og þá sérstaklega málefnum Landspítalans.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir í grein sem birtist í Fréttablaðinu í gær. Hann byrjar á að segja þetta, með leyfi forseta:

„Það er orðið lýðum ljóst að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs mun ekki sitja lengur en sem nemur kjörtímabilinu. Ástæðan er margþætt og það á við hér eins og segir í Geirmundarsögu Heljarskinns að „það renna margir orsakalækir að einum ósi örlaga“.“

Síðan vill hann rýna í spjöld sögunnar og fara yfir það hvernig standi á því að hann dragi þá ályktun að ríkisstjórnin sé einnota. Hann vitnar í loforð sem gengu út á að heilbrigðiskerfið, og ekki síst Landspítalinn, ætti að fá stórar fúlgur fjár.

Hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, sagði í sjónvarpsviðtali að það þyrfti bara 13 milljarða og þá væri allt í góðu og þá hefur hv. þingmaður væntanlega verið að tala um 13 milljarða til þess að hægt væri að taka á málum, nýjum verkefnum, en ekki bara til þess að bæta kjör og til launauppbóta. Milljarðarnir sem hafa komið frá því að ríkisstjórnin tók við hafa nánast allir, nema 1.700 milljónir, farið í kjarabætur og verðlagsuppbætur. Núna er staðan þannig að ekki er tekið á magnaukningunni, um 2% eða 1,7% segja stjórnendur Landspítalans að magnaukningin sé á ári sem gerir um það bil milljarð í kostnað.

Þar sem ekki er gert ráð fyrir auknum fjármunum til að mæta fleiri sjúklingum á Landspítalanum er stjórnarmeirihlutinn að gera niðurskurðarkröfu á Landspítalann, sem er í vondum málum, upp á milljarð kr. Þetta eru tíðindi sem eru alvarleg og við verðum að hlusta á.

En aftur að Kára Stefánssyni. Hann rifjar upp loforðin og hann rifjar upp kannanir sem hafa sýnt að það sé eindreginn vilji þjóðarinnar að forgangsraða heilbrigðiskerfinu fremst og að byrjað sé að gefa þar myndarlega til baka. En eins og allir vita skárum við niður á öllum sviðum og ekki var hægt annað en að gera það líka í heilbrigðisþjónustunni sem er dýr þjónusta og tekur stóran hluta af ríkisútgjöldunum og það þurfti að skera þar niður. Við hættum að skera þar niður árið 2012 og byrjuðum að gefa til baka árið 2013 og áætlanir voru um að halda áfram að byggja upp þegar við mundum rétta úr kútnum. Nú höfum við rétt úr kútnum.

Forgangsverkefni núverandi ríkisstjórnar er hins vegar að lækka skatta og gjöld á þá sem eiga nóg fyrir en svelta Landspítalann og koma ekki til móts við magnaukningu þar.

Kári Stefánsson dregur fram dæmi og minnir á að fjárfestingar í heilbrigðisþjónustunni séu afar lágar hér miðað við OECD-ríkin og reyndar hefur það komið fram að við erum í næstneðsta sæti, mitt á milli Grikklands og Mexíkó. Þar erum við, Íslendingar, þessi ríka þjóð sem stærir sig af heimsmetum hægri vinstri. En við erum ekki á betri stað þegar kemur að fjárfestingum í tækjum, búnaði og húsnæði í heilbrigðisþjónustu.

Kári Stefánsson segir að hann ætli sjálfur að sjá til þess að 100 þús. manns skrifi undir sem lofi að kjósa aldrei aftur Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn ef það kemur ekki eitthvað hér á milli umræðna.

Ég vona sannarlega að ekki þurfi svona hótanir til, heldur muni stjórnarliðar sjá að ekki gangi annað en að bregðast við magnaukningunni að minnsta kosti. Ríkisendurskoðun er að reikna út kjarasamninginn því að menn eru ekki sammála um það á milli ráðuneyta, fjármálaráðuneytis og velferðarráðuneytis, þar munar 400 milljónum þar sem fjármálaráðuneytið reiknar vaktasamninga lækna lægri en velferðarráðuneytið. Ríkisendurskoðun er að reikna þetta út fyrir fjárlaganefnd þannig að hægt sé að skera úr um það, enda væri það enn alvarlegra ef Landspítalinn þyrfti þá að skera niður um rúmlega 1,4 milljarða á árinu 2016. Síðan er það viðhaldið á húsinu. Það er 1,4 milljarðar líka, sem stjórnendur spítalans segja að þurfi til að halda við húsnæðinu.

Það er önnur ágætisgrein og athyglisverð sem var skrifuð í fyrradag í Morgunblaðið sem ber yfirskriftina Að skreyta sig með annarra manna fjöðrum. Sú grein er eftir Tómas Guðbjartsson lækni. Þar talar hann til forustu fjárlaganefndar, formanns og varaformanns, og segir að þau séu að taka með í reikninginn gjafir sem Landspítalinn hafi fengið þegar verið er að reyna að toppa upp stöðuna og hvað ríkið hafi gert og lagt spítalanum til. Hann segir, með leyfi forseta:

„Það er óþolandi að Landspítali þurfi sífellt að sitja undir ákúrum um óhagkvæman rekstur;“ — þetta segir Tómas Guðbjartsson um þá greiningu sem á að gera, leggja á 30 millj. kr. í að greina stöðu spítalans — stofnunin fær einfaldlega ekki nægt fé til að veita grunnþjónustu og standa við kjarasamninga, hvað þá að hægt sé að byggja hana upp á ný eftir viðvarandi þrengingar sl. aldarfjórðung. Þannig er talið að á næsta ári vanti a.m.k. 3 milljarða til að ekki þurfi að skera niður þjónustu og halda sjó í rekstrinum.“

Tillögur minni hlutans ganga út á þetta. Þær eru upp á tæpa 3 milljarða einmitt eins og greiningar hafa sýnt og það vita allir að ekki er hægt að bíða eftir einhverri greiningu sem á að fara fram fyrir 30 millj. kr. á árinu 2016. Við verðum að láta fé inn í sjúkrahúsið núna um áramótin.

Síðan segir Tómas í greininni: „Því skal haldið til haga að frá 2003 til 2014 hefur fjármögnun Landspítala sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkisins dregist saman um rétt tæplega þriðjung. Á sama tíma eykst þörf fyrir lögbundna þjónustu spítalans um 2% á ári vegna aukinna verkefna sem tengjast mest fjölgun aldraðra.“

Síðan kallar hann eftir skilningi stjórnvalda og alvöruframtíðarsýn og vilja í verki. Ég tek undir að það þarf nauðsynlega að gera og minni á tillögur minni hlutans sem eru í lið 28 á breytingarskjali minni hlutans. Þar er talað um að Landspítalinn fái í rekstur 1,4 milljarða, og þar er þá bæði magnaukningin og vaktabreytingin hjá læknum, og síðan í viðhald fari líka 1,4 milljarðar. Samtals renni til Landspítalans til viðbótar því sem stendur í frumvarpinu 2.840 millj. kr. Þetta er lágmark. Auðvitað þarf, eins og kallað er eftir, framtíðarsýn í þessum málaflokki.

Þetta eru tvö stór og mikil mál; staðan í málefnum aldraðra og öryrkja og staða Landspítalans, hvernig aldraðir og öryrkjar verða verr settir en þeir sem eru með lægstu laun í samfélaginu á árinu 2016, niðurskurðarkrafa er upp á milljarð eða meira eftir því hvernig launin eru reiknuð, að minnsta kosti milljarð á Landspítalann í blússandi góðæri. Við erum að mola stoðina niður, okkar styrku stoð undir velferðarkerfið og halda niðri hópum sem verst eru settir.

En ég vil nefna líka annað mál sem er lögreglan í landinu. Gert er ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu, eða breytingartillögunum, að leggja eigi fram 400 milljónir til löggæslunnar. Hæstv. innanríkisráðherra hefur sagt að það sé tvennt sem þurfi að skoða þegar á að skipta þessu á milli lögregluumdæma. Það þarf að skoða landamæraeftirlit og bregðast þarf við fjölgun ferðamanna.

Hallinn á embættunum er rétt tæpar 400 millj. kr. og ég hef áhyggjur af því að eina sem þetta geri sé að dekka hallann en ekki komi fjármagn til þeirra verkefna sem liggja á borðum lögreglunnar og er ekki sinnt núna vegna þess að þeir hafa ekki mannafla til þess. Ég hef sérstaklega verið að horfa á Suðurkjördæmi, en auðvitað er vandinn úti um allt land. En fjölgun ferðamanna er mikil og ferðamenn fara mikið um Suðurkjördæmi.

Vegagerðin var nýlega með mynd af því sem sýndi að nánast allir erlendir ferðamenn sem koma til landsins fara að Gullfossi og Geysi. Nánast allir. Síðan dreifast þeir vissulega um landið. Því miður hefur stefnumörkun í þessari atvinnugrein ekki verið nógu öflug af hendi stjórnvalda þannig að við erum í tómu tjóni þar, en ég hef ekki tíma til að fara yfir öll þau ósköp.

Ferðamönnum fjölgar óskaplega mikið og fjöldi ferðamanna á hvern lögregluþjón í landinu hefur margfaldast, ef við horfum á Suðurkjördæmi sérstaklega. Þegar dauðsföll verða eða alvarleg slys fer lögreglan í þau mál auðvitað og allt sem varðar líf og limi fólks fer lögreglan í. En þegar hún er svona fáliðuð og verkefnunum fjölgar svona stórkostlega þá munu augljóslega sitja á hakanum önnur verkefni sem ekki varðar bara líf og limi fólks strax. Þar undir eru heimilisofbeldismál. Þar undir eru mál sem tengjast börnum sem verða vitni að heimilisofbeldi á heimilum sínum. Áætlanir og átak lögreglunnar og sveitarfélaga víða um land um að vinna átak gegn heimilisofbeldi og standa betur og grípa fyrr inn í og standa með börnunum sérstaklega, staða lögreglunnar veikist í þeim verkefnum nema við grípum sérstaklega inn í.

Minni hlutinn er með tillögur um að 200 milljónir fari sérstaklega í kynbundið ofbeldi sem þrífst best innan veggja heimila og í þöggun og aðgerðaleysi samfélagsins. Það megum við auðvitað ekki láta líðast. Minni hlutinn leggur til 200 millj. kr. inn í þennan málaflokk.

Þá eru eftir auðgunarbrot og alls konar slík brot sem liggja bara á borðum löggæslunnar og hún hefur lítinn tíma til að sinna. Þetta er því alvarleg staða. Eins og ég benti á áðan þarf að horfa sérstaklega til Suðurkjördæmis — og nú segja menn þetta sé kjördæmapot af verstu sort, en það er ekki þannig. Það er bara vegna þess að næstum allir ferðamenn fara um Suðurkjördæmi. Þar er landamæravarslan náttúrlega og síðan fara menn um Suðurkjördæmi og álagið á löggæsluna er mikið þar. Auðvitað er það líka mikið á höfuðborgarsvæðinu og fer vaxandi ef ferðamenn fara víðar um landið. Það verður því að taka á þessu.

Í umræðunni um byssur og vopn og vesen sem menn hafa tekið hér á Alþingi þá óttast ég að þjónustan við íbúana, sérstaklega varðandi heimilisofbeldi og auðgunarbrot og allt sem varðar ekki bara beint líf og limi, fái ekki eins mikla athygli. En það er nauðsynlegt að slík þjónusta sé veitt.

Frú forseti. Ég vil nota síðustu mínúturnar til að tala um heimildargreinarnar. 6. gr. í frumvarpinu er heimildargrein og meiri hluti fjárlaganefndar gerir breytingartillögu og leggur til að Alþingi veiti heimild til að selja húsnæðið Laugaveg 162, minnir mig, það er alla vega húsnæði Þjóðskjalasafnsins. Ég hef áhyggjur af þessu. Það er búið að leggja mikið í stefnumörkun fyrir safnið. Búið er að leggja fjármuni í teikningar á endurhönnun og hvað megi gera við húsnæðið og lóð þess til að mæta þörfum Þjóðskjalasafnsins. Þjóðskjalasafnið sinnir stjórnsýslunni í landinu, fræðasamfélaginu og almenningi. Það er því mikilvægt að safnið, sem er eina safnið sem nefnt er í stjórnarskrá, sé í alfaraleið, að það sé ekki fært upp á Höfða eða upp á Keflavíkurflugvöll í húsnæði sem ríkið á þar eða á stað þar sem aðgengi er ekki greitt. Það er ágætt þar sem það er.

Það er skrýtið að koma með svona heimildargrein. Auðvitað dettur manni í hug að menn séu að huga að því að það sé nú sniðugt að hafa þarna hótel, lundabúðir eða eitthvað slíkt, að staðsetningin sé þannig að ekki eigi að spandera henni undir þjóðskjalasafn. Það sýnir ekki skilning á stöðu safnsins og mikilvægi þess fyrir stjórnsýsluna, fyrir fræðasamfélagið og fyrir almenning í landinu að aðgengi sé gott. Þessu er kastað fram beint ofan í nýsamþykkta stefnu um staðsetningu safnsins einmitt á Laugavegi 162.