145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mig langar að spyrja hv. þingmann að tvennu, í fyrsta lagi um kjör aldraðra og öryrkja sem eru hér það mál sem svífur yfir vötnum. Stjórnarþingmenn fá hver af öðrum bakþanka varðandi það að hafa greitt atkvæði á móti tillögu minni hlutans um að afturvirkar hækkanir kæmu til þessa hóps.

Hvað sér þingmaðurinn fyrir sér í þeim efnum? Að við getum mæst einhvers staðar með slíkum tillögum að hægt sé að draga fleiri að borðinu?

Aðeins um sóknaráætlanir, byggðaáætlun, vaxtarsamninga og menningarsamninga. Nú er búið að steypa þessu öllu í einn pott og maður gerir sér ekki alveg grein fyrir hvort verið sé að draga úr fjármagni eða hvort það sé sambærilegt og hefur verið en líti kannski betur út af því að þetta er orðinn einn (Forseti hringir.) pottur.