145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:10]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu eins og ávallt. Það sem ég hef oft velt fyrir mér, búinn að vera á þingi í tvö og hálft ár og hef fylgst með stjórnmálum í nokkur ár, er að nú er þessi vandi heilbrigðiskerfisins ekkert nýr. Hann hefur verið til áratugum saman, liggur við. Þegar maður hlustar á þá sem starfa í þessu fagi og inni á spítalanum og annað er verið að tala um að þetta sé búin að vera áralöng barátta við að reyna að byggja upp almennilegt heilbrigðiskerfi á Íslandi. Meira að segja í því bullandi góðæri sem var hérna á sínum tíma á síðasta áratug var ekki hægt að reka heilbrigðiskerfið réttum megin við núllið. Núna til dæmis í síðustu kosningabaráttu var aldeilis lofað öllu fögru um að byggja hér upp heilbrigðiskerfi sem sómi væri að, en reyndin er allt önnur. Ég verð að viðurkenna að ég klóra mér í hausnum á hverjum einasta degi. Á hvaða leið erum við? Hv. þingmaður nefndi áðan skoðanakannanir sem segja að yfir 90% þjóðarinnar vilja setja heilbrigðiskerfið í forgang, svo ég tali ekki um það að bæta kjör eldri borgara og öryrkja, 95% segja í skoðanakönnunum að það eigi að vera í forgangsröðinni og þeir eigi að fá að njóta sömu afturvirku kjarabóta og launabóta og almenningur.

Hvernig stendur á því að menn standa í þessari baráttu, ekki síst núna þegar það er afgangur á fjárlögum? Það er verið að boða ótrúlega tíð á næsta ári þegar stöðugleikaframlagið fer að tikka inn, fleiri hundruð milljarðar fara í ríkissjóð sem mætti nota til að lækka vaxtabyrði samfélagsins, en samt er ekki farið á fullu inn í heilbrigðiskerfið og gert þannig að sómi sé að. Hvað gengur mönnum til? Af hverju erum við Íslendingar svona? Getur hv. þingmaður svarað þessu fyrir mig, og stjórnmálamenn: Af hverju eru menn svona?