145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:14]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hef líka oft velt fyrir mér í þessari 330 þús. manna þjóð hvers vegna við erum alltaf svona ótrúlega ósammála um alla hluti. Það var komið inn á það áðan í andsvari, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir og fleiri hafa komið inn á það, að það fyrsta sem þessi ríkisstjórn gerði á sumarþingi var að eyðileggja nánast allt sem fyrri ríkisstjórn hafði gert; fjárfestingaráætlun, sóknaráætlanir landshluta, draga til baka virðisaukaskattshækkun á gistináttagjald. Maður situr bara og klórar sér í hausnum. Út á hvað ganga stjórnmál á Íslandi í alvöru? Til hvers erum við hérna? Og hvernig getum við fundið leiðir til þess að setjast niður og ræða í sátt og samlyndi hvað sé best fyrir þetta land? Ég veit alveg af hverju ástandið er svona. Það er af því að við erum alltaf að verja einhverja sérhagsmuni. Þú komst inn á það í ræðu þinni áðan, það er verið að verja sérhagsmuni, það er verið að lækka gjöld og skatta á þá sem nóg eiga af peningum í samfélaginu. Það er vandamálið, það sem við erum að gera. (Forseti hringir.) Við þurfum að fá samtal við fólkið í landinu og ekki síst þá sem eiga nóg af peningum.

(Forseti (ValG): Forseti minnir hv. þingmenn á að ávarpa aðra þingmenn á réttan hátt í ræðustóli.)