145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að fara yfir alla hluti í stuttu andsvari, en ég vil ítreka það varðandi Þjóðskjalasafnið, ef það hefur farið fram hjá einhverjum, að það eru heimildargreinar í 6. gr. fjárlaga og það er ekki svo þegar heimild er veitt að það þýði að menn hlaupi til og selji einhverja hluti á nokkrum mínútum eða nokkrum vikum eða nokkrum mánuðum. Til dæmis er búin að vera lengi heimildargrein um lögreglustöðina. Það er augljóst og eðlilegt og gott að menn beri hlýjan hug til þess mikilvæga safns sem Þjóðskjalasafnið er og það stendur ekki til og það er ekki ætlun neins að fara að hlaupa til með hagsmuni Þjóðskjalasafnsins. Það þarf ekki að fara yfir mikilvægi þess. En ég bendi á að Þjóðskjalasafnið er til húsa í gamalli ostaverksmiðju og það hefur kostað mikið og mun kosta mjög mikið að reyna að breyta húsnæðinu þannig að það henti og sé sómi að. Það er eðli málsins samkvæmt tækifæri vegna breyttra aðstæðna, þetta svæði er núna algerlega í miðborg Reykjavíkur og verðmæti hússins og ekki bara þess heldur svæðisins í kring hefur aukist og þar af leiðandi væri hægt að losa um fjármuni til að gera safnið þannig úr garði að sómi yrði að. Það er algjörlega ljóst að þjóðskjalasafn getur ekki verið hvar sem er.

Síðan finnst mér svolítið sérkennileg umræðan um bæði heilbrigðismálin og lífeyrismálin. Tölurnar tala sínu máli, við vitum að það er búið að bæta í. Menn geta sagt að það eigi að gera hlutina öðruvísi o.s.frv., en það getur enginn haldið því fram að þetta hafi ekki verið í forgangi. Menn eiga ekki að tala niður þau verk sem hafa verið unnin í báðum málaflokkum, t.d. þessa stóru kjarasamninga sem var farið í til þess að koma í veg fyrir að læknar og hjúkrunarfólk færu til annarra landa. Þeir hafa (Forseti hringir.) augljóslega gengið eftir því að við heyrum ekki af þeim vandamálum lengur svo eitt dæmi sé tekið.