145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Almenna reglan um 6. gr. heimildir er að það er ekki hlaupið til og selt og eins og ég hef nefnt áður eru aðrar greinar þarna, t.d. um Tollhúsið og það að sú grein sé þar inni þýðir ekki að menn ætli að loka tollinum og biðja fólkið sem sinnir þeim störfum að vera í tjöldum. Tortryggni er mikil í þjóðfélaginu og það er hægt að búa til tortryggni, menn geta haft allar skoðanir á þessu máli en mér finnst ekki gott þegar menn ala á tortryggni því að það er engin ástæða til þess.

Varðandi heilbrigðismálin hefur það verið stefna stjórnvalda lengi, því miður komst það ekki í framkvæmd sem snýr að spítalanum núna þó að það hafi verið í nefndaráliti síðast, að Sjúkratryggingar Íslands eigi að hafa það hlutverk að koma á blandaðri fjármögnun, svipað og er á Norðurlöndunum og sem Landspítalinn hefur kallað eftir. Ég er sammála hv. þingmanni, það er mjög æskilegt að það gerist. Það skiptir máli að fjármögnun, alveg sama hvar í kerfinu er, hvort það er til einkarekinna aðila eða opinberra, að því betur sem hún er kostnaðargreind (Forseti hringir.) og gagnsæ, þá verður umræðan betri og sömuleiðis árangurinn.