145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:24]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Mig langar að nota tækifærið, hugsanlega á síðasta degi mínum á þingi í bili, til að ræða mál sem mér er mjög hjartfólgið og ég kom aðeins inn á í ræðu minni um fjárlagafrumvarpið í gær. Það er málefni geðsjúkra og almennt um geðheilbrigðismál hér í landi. Þetta er auðvitað mjög stórt mál og tengist víða, það tengist inn í heilbrigðisþjónustuna, heilsugæsluna, velferðarþjónustu sveitarfélaga og það hefur mjög marga snertifleti. Það tengist að sjálfsögðu mjög umræðunni um kjör ellilífeyris- og örorkuþega vegna þess að geðsjúkdómar eru mjög gjarnan orsök og afleiðing af ýmiss konar fötlun og örorku. Við þekkjum það vel að þetta er líka fylgifiskur ellinnar og þess vegna held ég að það sé mjög brýnt samfélagsmál að fara að taka á geðheilbrigðismálum út frá heildstæðri nálgun.

Virðulegur forseti. Fyrir þinginu og velferðarnefnd liggja núna drög eða tillaga til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Henni var hrint í framkvæmd eftir þingsályktunartillögu frá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og fleirum sem lögðu það til að heilbrigðisráðherra færi í vinnu við mótun geðheilbrigðisstefnu fyrir Ísland ásamt aðgerðaáætlun. Hæstv. ráðherra heilbrigðismála tók málið í sínar hendur og er ég honum mjög þakklát fyrir þá röggsemi. Hann setti á laggirnar stýrihóp og sú sem hér stendur var meðal fulltrúa í þeim hópi. Ég var þar fulltrúi barna eða aðstandenda geðsjúkra. Það er mér ljúft og skylt og mjög ánægjulegt að geta miðlað af reynslu minni í þeim efnum. Það voru margir sérfræðingar í þessum hópi og líka einstaklingar sem hafa reynslu á eigin skinni við að glíma við þennan sjúkdóm, þannig að ég held að þarna hafi verið samankominn mjög góður hópur fólks sem nálgaðist viðfangsefnið með heildstæðum hætti. Auk þess var kallaður til fjöldinn allur af ráðgjöfum og samráð var víðtækt.

Á fundi velferðarnefndar í morgun þar sem ég sat og hlustaði á nokkra gesti koma og fylgja eftir umsögnum sínum, m.a. Geðhjálp, Öryrkjabandalag Íslands og Þroskahjálp, komu fram ýmsar athugasemdir. Ég held að það sé ekki tilefni til að fara neitt nákvæmlega yfir þær vegna þess að málið er til meðferðar í nefndinni og það eru mjög margir sem eiga eftir að koma á fund hennar og ræða drög að geðheilbrigðisstefnu. Það er samt tvennt sem mig langar að gera að umtalsefni núna. Það kom mjög góð ábending, sem ég held að nefndin muni taka alvarlega til sín, ég vona það, frá öllum gestum fundarins um að það vantaði inn í drögin, inn í þingsályktunartillögu ráðherra, tengingu við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þetta er grundvallaratriði og ég vona að úr því verði bætt á milli umræðna í þinginu.

Það var líka bent á það á fundi velferðarnefndar í morgun að varla sé hægt að kalla þetta stefnumótun í geðheilbrigðismálum, þetta sé meira aðgerðaáætlun. Sú sem hér stendur getur alveg tekið undir þá gagnrýni eða þær ábendingar en ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þetta sé ákaflega gott fyrsta skref í því að ræða af fullri alvöru um geðheilbrigði þjóðarinnar. Við skulum halda áfram að ræða þetta á þingi og hafa forgöngu um að ræða þetta úti í samfélaginu líka, eins oft og við getum.

Í umræðunni um fjárlög næsta árs eru atriði sem mig langar sérstaklega að benda á í þessu sambandi. Nú átta ég mig á, virðulegur forseti, að það er ekki búið að samþykkja þessa tillögu til þingsályktunar en það er samt sem áður vonandi hægt að taka inn einhver mál sem hér eru og ég býst við að ekki sé mikill ágreiningur um, en ég skal ekki fullyrða. Það er eitt af mikilvægum markmiðum og eitt af aðalmarkmiðunum að það sé samþætt og samfelld þjónusta við fólk með geðraskanir og fjölskyldur þeirra. Þarna er verið að undirstrika mikilvægi þess að ríki og sveitarfélög, þ.e. heilbrigðisþjónustan og velferðarþjónusta sveitarfélaga, tali saman til þess að einfalda málið á vissan hátt því að geðsjúkdómar eru með þeim hætti að það þarf ekki alltaf innlagnir á sjúkrahús. Eitt af þeim málum sem hér er sett sem undirmarkmið í samþættri og samfelldri þjónustu er verkefnið Tölum um börnin, sem er um það að fjölskyldubrúin verði innleidd innan velferðarþjónustu sveitarfélaga. Ég held að í því verkefni sé ekki mjög mikill ágreiningur. Hér er verið að tala um að innleiða vinnubrögð sem eru vel þekkt til dæmis annars staðar á Norðurlöndum, þ.e. að starfsfólk sem vinnur með börn, ýmist í skólum, á frístundaheimilum eða í leikskólum, fái þjálfun í því að tala um geðsjúkdóma við börn og taka utan um börn sem alast upp í skugga geðveiki. Þetta er dæmigert verkefni sem er samstarfsverkefni heilbrigðisyfirvalda og sveitarfélaga. Í greinargerð með frumvarpinu segir til dæmis um þetta verkefni, með leyfi forseta:

„Geðrænn vandi foreldra er þekktur áhættuþáttur fyrir líðan barna og getur haft áhrif á þroska þeirra og geðheilsu og því mikilvægt að alltaf sé hugað að börnum þeirra sem glíma við geðsjúkdóma. Hægt er að hafa jákvæð og verndandi áhrif á líðan og stöðu þessara barna eins og kemur fram í erlendum rannsóknum. Hér er lagt til að setja á fót ákveðna þjónustu í nærumhverfi þar sem talað er við foreldra með geðraskanir um börnin þeirra. Tilgangur þess að tala um börnin við foreldra er að draga úr flutningi geðheilsuvanda milli kynslóða en mikilvægt er að hafa í huga að 75% geðraskana koma fram í einhverri mynd fyrir 24 ára aldur og 50% fyrir 14 ára aldur (forvarnargluggi geðsjúkdóma). Annars staðar á Norðurlöndunum hefur verið lögleitt að fagfólk í félagsþjónustu og heilsugæslu kunni aðferðir til að ræða við foreldra með eða án barnanna um geðræna erfiðleika þeirra. Einnig hafa sjálfshjálparhópar fyrir unga aðstandendur (16–25 ára) verið stofnaðir á vegum hins opinbera í þessum löndum en í náinni samvinnu við hagsmunasamtök. Með lagasetningunni hefur fylgt fjármagn til að mennta og þjálfa fagfólk ásamt fjármagni í vísindarannsóknir.“

Í þingsályktunartillögu ráðherra um stefnu og aðgerðaáætlun er þetta afmarkaða verkefni verðmetið á 28,8 millj. kr. en því miður hefur láðst að setja það inn í fjárlög komandi árs, og kannski eðlilegt því að ekki er búið að samþykkja það. Þess misskilnings gætir að búið sé að fjármagna þessa vinnu í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar til fjárlaga árið 2016. Sá misskilningur er uppi vegna þess að í gjaldalið 08-399 um heilbrigðismál og ýmsa starfsemi segir að gerð sé tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag sem skiptist þannig að 10 millj. kr. fara til Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess, og 20 millj. kr. til að efla starfsemi Miðstöðvar foreldra og barna í Síðumúla í Reykjavík. Það gætir misskilnings í þeim efnum. Miðstöð foreldra og barna er einkarekið fyrirtæki sem hefur einbeitt sér að því að styðja við mæður og börn þeirra upp að eins árs aldri. Þetta er afar gott og brýnt að verkefnið haldi áfram en þetta er að því leyti til afmarkað að þetta er einkafyrirtæki sem sinnir þessum afmarkaða hópi.

Það sem er lagt fram í þingsályktunartillögu og drögum að stefnumótun í geðræktarmálum er annar hlutur og hann er sá að verkefnið Tölum við börnin nái til allra barna á öllum aldursskeiðum upp á fullorðinsár og að starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar og velferðarþjónustu sveitarfélaga sé þjálfað til að taka að sér þetta verkefni. Þetta snýst um það að allir landsmenn, hvar sem þeir búa, óháð stétt og stöðu, geti nálgast þessa þjónustu, þ.e. öll börn í landinu hafi aðgang að þjónustunni óháð efnahag foreldra, og það er mjög mikilvægt að átta sig á því að á þessu er reginmunur. Ég hef aðeins kynnst verkefninu Miðstöð foreldra og barna og er mjög hrifin af því og ég veit að þau gera mjög góða hluti, en ég vil árétta að hitt er allt annar handleggur og það er mjög mikilvægt í nafni samstöðu og jöfnuðar að það átak fari af stað. Ég held ekki að ræða þurfi frekar um það, það mun auðvitað hafa mjög víðtæk heilsufarsleg og efnahagsleg áhrif því að ef menn rjúfa þá keðju sem er flutningur á geðsjúkdómum milli kynslóða er það verulegur ávinningur fyrir samfélagið.

Það er annað mál í þessari stefnumótunartillögu sem okkur var bent á í morgun á fundi velferðarnefndar og mér finnst að meiri hluti fjárlaganefndar eigi að taka til alvarlegrar athugunar. Það er að á Landspítalanum eru núna búsettir sex einstaklingar sem hafa verið útskrifaðir af réttargeðdeildinni á Sogni — er hún ekki þar enn þá? Þeir geta ekki hafið sjálfstæða búsetu vegna geðfötlunar sinnar en þeir eru búsettir á Landspítalanum, á þjóðarsjúkrahúsinu. Það er auðvitað algjörlega óásættanlegt að við skulum fara þannig með fjármuni hins opinbera að láta fólk búa á Landspítalanum við Hringbraut. Ég geri það að tillögu minni að meiri hluti fjárlaganefndar líti á þennan lið sem heitir A.9 í drögum að stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára og skoði hvort hægt sé að finna flöt á því með einhverjum hætti að hrinda því verkefni af stað strax á næsta ári, þ.e. að tryggja þessum sex einstaklingum sjálfstæða búsetu með aðstoð og losa þannig mjög dýrmæt pláss á háskólasjúkrahúsi okkar. Það kom fram í umræðunni í morgun á fundi velferðarnefndar að verið væri að skoða tiltekna lóð í Reykjavík til að byggja upp þessa aðstöðu en það bar flestum saman um að algjörlega ótækt væri að bíða svo lengi eftir að gripið yrði til aðgerða til að koma þessu fólki í fasta og sjálfstæða búsetu.

Virðulegi forseti. Að því sögðu vona ég að þessari stefnu og endurbótum á henni verði fylgt ríkulega eftir í velferðarnefnd og svo aftur á þinginu og að út komi áhrifamikil stefnumótun í þessum málaflokki sem okkur verði mikill sómi að á allan hátt.

Ég ætla að nota örfáar mínútur, síðustu mínúturnar sem ég hef í þessari ræðu, til að fara yfir í allt annað mál sem hefur þó ákveðna snertifleti, eins og flest í þjóðfélaginu sem tengist saman með einhverjum hætti. Það er mál sem ég reifaði í morgun undir liðnum um störf þingsins og er um hugmyndir Evrópuþingsins og fleiri aðila um að hjálpa minnstu bræðrum okkar sem flýja nú unnvörpum stríðsátakasvæði í Sýrlandi og víðar fyrir botni Miðjarðarhafsins. Upp hefur komið sú hugmynd að í nafni Schengen verði opnuð svokölluð miðstöð vegabréfaáritana á þeim stöðum í þeim löndum þar sem flestir flóttamenn hafa komið sér fyrir. Í tilviki Sýrlendinga er það í Tyrklandi, Jórdaníu og Líbanon. Það er unnið að þeirri hugmynd núna á vettvangi Evrópuþingsins og vettvangi Schengen og hún gengur í stórum dráttum út á það að Schengen-ríkin, þau lönd sem standa að Schengen-samstarfinu opni sameiginlega áritunarmiðstöð og þangað geti leitað flóttamenn sem vilja komast til Evrópu. Við skulum átta okkur á því að það eru ekki allir flóttamenn sem dvelja í flóttamannabúðum í þessum löndum, Palestínu, Tyrklandi og Jórdaníu, sem vilja fara til Evrópu. Það er minni hlutinn en þeir sem vilja fara til Evrópu þurfa, eins og staðan er í dag, að leggja á sig mikið og hættulegt ferðalag, fyrst yfir Miðjarðarhafið og síðan tekur við óvissan við það að ganga í gegnum Evrópu, þ.e. þeir sem ná ströndum Evrópu, og að stinga sér niður í eitthvert af Evrópuríkjunum og biðja um að fá stöðu flóttamanns eða hælisleitanda. Með því að opna sameiginlega vegabréfsáritunarstöð í eða nálægt flóttamannabúðunum geta flóttamenn sem vilja koma til Evrópu sótt um svokallaða mannúðarvegabréfsáritun eða mannúðaráritun. Þeir sem fá slíka áritun eru þar með komnir undir alþjóðlega vernd og geta lagt af stað í ferðalag til Evrópu án þess að þurfa að leggja í hina hættulegu siglingu yfir Miðjarðarhafið og óvissugönguna um Balkanskaga og til Norður- eða Vestur-Evrópuríkja. Þeir fá með öðrum orðum uppáskrift upp á mannúðaráritun og geta farið með sóma og reisn með þeim ferðamáta sem þeim hentar hverju sinni. Með því að standa að þessu sem eitt af Schengen-ríkjunum finnst mér Íslendingar sýna mannúð og manngæsku en ég undirstrika að þetta er ekkert sem Ísland gerir eitt og sér, þetta er ákvörðun sem er bæði tekin og unnin á vettvangi Schengen-samstarfsins. Í mínum huga er það ekki spurning að við Íslendingar eigum að vinna að því og róa að því öllum árum að styrkja Schengen-samstarfið frekar en að veikja það, enda held ég að þegar til stykkisins kemur geti enginn hugsað sér að loka Schengen-svæðinu og byggja upp brýr, landamæri eða múra á milli Schengen-ríkjanna aftur. Það yrði fullkomið afturhvarf. Með því að hjálpa flóttamönnum sem hafa þurft að þola nóg þegar í flóttamannabúðir er komið, með því að losa þá undan þeirri ánauð að þurfa að leggja á hafið í óvissuna þar sem kannski 2/3 komast yfir alla leið, með því að losa þá undan því og veita þeim mannúðaráritun held ég að við komumst aðeins í áttina að því að verða mannúðlegra samfélag og þar með fækka þeim álitaefnum sem koma upp hjá Útlendingastofnun og hefur verið hræðilegt að horfa upp á.

Það eru nokkrir fjárlagaliðir í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar sem mætti hugsanlega skoða. Ég hef ekki hugmynd um hvað svona aðgerð kostar en þetta er fyrst og fremst symbólísk ákvörðun til að byrja með, þ.e. að taka þátt í þessari hugmyndavinnu Schengen-samstarfsins og mæta þar með heilum hug.