145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:56]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina, stuðninginn og samstöðuna enda held ég að þegar við byrjum að tala um geðmál sé auðvelt að ná samhljóm í samfélaginu, ég held að almenn samstaða sé um það að bæta stöðu í geðheilbrigðismálum. Ég er sammála hv. þingmanni að við skulum taka höndum saman um að reyna að leysa vanda þeirra einstaklinga sem búa og eru með lögheimili á Landspítalanum við Hringbraut, taka höndum saman, vonandi með meiri hluta fjárlaganefndar, um að leysa vanda þeirra og losa þar með um dýrmæt pláss sem eflaust er mikil þörf fyrir.

Svo vil ég líka benda á það að við ættum líka að reyna að taka höndum saman um að koma á þessu verkefni sem heitir Tölum um börnin/Fjölskyldubrúin vegna þess að áhrifin af slíku verkefni eru mjög víðtæk um allt land. Það sem gerist er að fjöldi manns fær þjálfun í að tala við börn og foreldra þeirra sem búa við geðraskanir um þessi mál, hvernig er hægt er að tala um þau, og ég held að það yrði án efa stórkostlega mikill léttir fyrir mjög mörg börn ef þau gætu talað um geðsjúkdóma foreldra sinna og gengist við þeim á sama hátt og börn geta sagt að foreldri þeirra glími við sykursýki eða aðra viðurkenndari krankleika en geðveiki. Ég held að við mundum hjálpa óskaplega mörgum börnum sem búa við mikla tilvistarkreppu, svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Sú aðgerð sem er búið að kostnaðarmeta upp á 28,8 millj. kr. held ég að væri alveg sérstaklega áhrifarík og ódýr aðgerð.