145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:01]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að við ættum að skoða það vel hvort frjáls félagasamtök ættu að fá aukna fjármuni í að sinna þessu starfi en svo skulum við líka minnast þeirra orða sem til okkar var beint í morgun á fundi velferðarnefndar að mjög margir glíma við tvíþættan vanda, geðheilbrigðisvanda og svo annað sem stundum er bæði orsök og afleiðing, við vitum ekki hvort er upphafið. Við höfum ekkert rætt um það hér á þessum stað, í þessum stól, vanda þeirra sem eru með tvíþætta greiningu, hann er mjög mikill.

Það er ótrúlega mikill árangur að ná þessari stefnu hingað inn og vera komin með þingsályktunartillöguna inn í þingið og sannarlega í fyrsta sinn sem slíkt er gert. Þess vegna er þetta enn ánægjulegra og er vonandi upphafið að langri og mikilli umræðu. Þetta er búið að vera erfitt mál og mikið tabú en þess ber líka að geta að mjög mikið vatn hefur runnið til sjávar í þessum efnum undanfarin ár. Það hafa orðið talsvert miklar framfarir og umræðan hefur opnast mjög mikið og þar eiga ýmsir hlut að máli. Mig langar sérstaklega í þessu sambandi að nefna Héðin Unnsteinsson sem hefur verið óragur við að tala um sína reynslu, svo einhver sé nefndur af handahófi, bæði sem sjúklingur af kerfinu og öðru. Síðan eru ýmsir hópar á Facebook, ungt fólk með geðvanda og annað því um líkt, þetta hefur gerst mjög hratt undanfarin tíu ár eða svo. Fram til þessa var þetta óskaplega þungur baggi á þeim sem greindust með geðsjúkdóm og börðust við hann og þeim sem stóðu í kringum hann. Það hefur mikið áunnist en það er miklu lengri vegur fram undan að vinna með þetta.