145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú tók ég kannski ekki nákvæmlega eftir því hverjar af þeim hugmyndum sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson nefndi voru beinlínis hugsaðar í þessu skyni. En ég veit að hann hefur haft hugmyndir eins og þær að það ætti ekki að greiða vexti af bindiskyldufé og það færir fjármuni frá bönkunum í vissum skilningi yfir til Seðlabankans, í staðinn fyrir að Seðlabankinn borgi bönkunum vexti á bindiskylduna gerir hann það ekki og það fé liggur þar án ávöxtunar inni í bankanum og getur haft áhrif á það hvernig Seðlabankinn notar síðan stýrivaxtatækið.

Hugmyndir hv. þingmanns um að taka „peningaprentunarvaldið“, þ.e. ekki í skilningnum prentaðir seðlar heldur bara útgáfa nýs peningamagns í umferð af bönkunum, og búa til þjóðargjaldeyri eins og Svisslendingar ætla að kjósa um eru líka áhugaverðar í þessum efnum. Auðvitað er slæmt að hafa háa raunvexti. Það vill ekkert samfélag hafa það, af efnahagslegum ástæðum. Ég er líka hugmyndafræðilega (Forseti hringir.) á móti háum raunvöxtum. Ef raunvextir eru hærri en langtímahagvöxtur að meðaltali er aðeins verið að flytja verðmæti frá fólki til fjármagnseigenda, það er ekkert annað. (Forseti hringir.) Ég er því bæði efnahagslega og hugmyndafræðilega á móti háum vöxtum. (Forseti hringir.) En það þýðir ekki að það sé alltaf hægt að kenna Seðlabankanum um allt og skamma hann. Ríkisstjórnin ber líka ábyrgð.