145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta sé eina talan þar sem hv. þingmenn stjórnarliðsins geti látið það líta svo út með því að klína heimilisuppbótinni og greiðslum úr lögum um félagslega aðstoð inn í kerfið að þeir hafi staðið sig í sambandi við almannatryggingar. Ég hef tekið eftir því að þetta er markvisst reynt. Forsvarsmenn Öryrkjabandalagsins hafa strax mótmælt þessu og sagt að þarna sé verið að blanda saman hlutum sem ekki eiga erindi saman.

Það sem við höfum alltaf verið að tala um eru greiðslurnar innan almannatryggingakerfisins og spurningin um hvernig þær fylgja launaþróun í landinu. Þá blasa þær staðreyndir við sem ég fór meðal annars yfir áðan út frá því sem þegar liggur fyrir um þróun bótafjárhæðanna árin 2013, 2014 og 2015 og þróun launavísitölunnar 2013, 2014 og mjög líklegrar niðurstöðu á þessu ári. Þá blasir við þetta misgengi eða sú kjaragliðnun sem ég var að fara yfir.

Nei, þetta er væntanlega rétt tala sem hv. þingmaður fór með en hún er ekki ný af nálinni. (Forseti hringir.) Veruleikinn er sá að á löngu árabili voru bótagreiðslur til samans hliðstæðar eða jafnvel hærri en lægstu laun, en sem betur fer eru svo fáir á þeim töxtum eins og kunnugt er.