145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:39]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum deilt um hvort það sé sanngjarnt að taka heimilisuppbótina með eða ekki. En það er Tryggingastofnun sem borgar bæði bæturnar og uppbótina. Ef við höfum uppbótina ekki með verða bæturnar um 87% af lægstu launum. Við getum deilt um hvort þær eigi að vera minni eða meiri, en alla vega með þessum bótum þá verður það til skiptis aðeins ofan við eða aðeins neðan við.

En mig langar að spyrja hv. þingmann um breytingartillögur minni hlutans. Hann hefur talað um, aðallega í fyrri ræðu sinni, hversu lítið fari til uppbyggingar á innviðum í frumvarpinu og breytingartillögum meiri hlutans, en ég sakna þess að í breytingartillögum minni hlutans (Forseti hringir.) fari 1,5 milljarðar í Vegagerðina en í aðra innviði ekki króna. (Forseti hringir.) Það fer ekki króna í hafnarframkvæmdir, í ljósleiðara eða til heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, aðeins í Landspítalann.