145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Minni hlutinn fór vissulega ekki í það að semja nýtt fjárlagafrumvarp í heild með breytingartillögum. Það hefði verið vel þess virði og verðskuldað. Við hefðum auðvitað helst þurft að leggja fram algerlega komplett fjárlagafrumvarp og algerlega komplett tekjuöflunarfrumvörp sem valkost við það sem ríkisstjórnin er með. En því miður er það hægara sagt en gert fyrir þá sem ekkert hafa nema sjálfa sig til að vinna slíka hluti, við höfum ekki ráðuneyti eða önnur slík batterí á bak við okkur.

Það sem þá er gjarnan gert er að menn velja út það sem þeim finnst mikilvægast til að leggja áherslu á það hvers konar annarri sýn þeir mundu vilja beita sér fyrir. (Gripið fram í: Það eru ekki innviðir.) Jú, það er heldur betur innviðir. Ég veit ekki betur en að vegamálin séu þarna sérstaklega sett í forgang. Við getum auðvitað tekið allt en við gerum það þó með því að gera þeim hátt í sessi, Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri, sem ég held að flestir séu sammála um að sé hvað brýnast. Svo er það auðvitað þannig að á öðrum sviðum er kannski einhver vottur, einhver viðleitni hjá stjórnarliðum og þá sjáum við ekki ástæðu til að fara að bæta ofan á það (Forseti hringir.) ef það er eitthvað sem hægt er að lifa með. Þá veljum við það sem við teljum að eigi að setja mest í forgang.