145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var þannig að velferðarútgjöldin, að meðtöldum atvinnuleysisbótum, hækkuðu sem hlutfall af landsframleiðslu öll árin. Þau gerðu það. Það var einfaldlega vegna þess að þau jukust á ýmsum sviðum. Menn hlífðu þeim líka við niðurskurði umfram önnur svið, það var alltaf skorið minnst niður eða ekki neitt í heilbrigðis-, mennta-, sjúkratryggingamálum og atvinnuleysisbætur voru ekki skertar og grunnfjárhæðir lífeyrisgreiðslnanna ekki skertar. Það gilti öll árin. Það leiddi að sjálfsögðu til þess að þegar landsframleiðslan í viðbót dróst svo saman hækkaði hlutfall þessara útgjalda verulega. Þau fengu meiri forgang sennilega en nokkru sinn fyrr eða síðar í þeim skilningi að útgjöld til þessara mála voru varin umfram annað gegnum vandann.

Svo verðum við að muna í sambandi við heilbrigðismálin að þar er undirliggjandi þróun sem verður að hafa í huga. Þessi samanburður stjórnarliða núna er enn fáránlegri (Forseti hringir.) í ljósi þess að við vitum öll að það er undirliggjandi lýðfræðileg þróun í landinu (Forseti hringir.) sem er ávísun á ekkert annað en að þessi útgjöld aukist hlutfallslega.