145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:45]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar. Það er með ólíkindum að verða vitni að því hversu lágkúruleg þessi umræða hefur verið. Ég hef fylgst með henni erlendis frá í þessari viku en ég held að botninum hafi verið náð með ömurlegri grein hæstv. forsætisráðherra í Fréttablaðinu í morgun þar sem hann sýnir fyrst og fremst hversu illa hann er staddur í almennri rökræðu um pólitík í landinu, að geta ekki einfaldlega horfst í augu við þann málflutning sem menn bera fram. Allir þeir sem hafa reynt íslenskt heilbrigðiskerfi á undanförnum missirum eða eiga einhvern sem hefur þurft á því að halda vita hvert ástandið er þar. Það að reyna að telja fólki trú um að hér sé verið að vinna einhver kraftaverk eða gera einhverja góða hluti, er móðgun við heilbrigða skynsemi fólks í landinu.