145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni góða ræðu. Hv. þingmaður ræddi fjárlögin einkum eða að stórum hluta út frá ræðu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, sem vakti athygli fyrr í dag. Ég hlustaði á þá ræðu og það er eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, hv. þm. Frosti Sigurjónsson hugsar gjarnan út fyrir boxið og við búum sannarlega að því í þingflokki Framsóknar. Þetta er hollt og öllum gott.

Flestar hugmyndirnar sneru í kjarnanum að sparnaði, og lagði hv. þingmaður það skemmtilega fram, en sneru hins vegar að peningastefnu og peningastefnutengdum málum. Við erum jú alltaf að reyna að ná fram bættum lífskjörum í hagkerfinu og treystum á samspil peningastefnu og fjármálastefnu og fjárlögin snúa að þeirri hlið sem er fjármálastefnan.

Ég vil í fyrra andsvari spyrja hv. þingmann út í þá heimild sem lögð er til í 6. gr. fjárlaga, að ríkið hafi heimild, og ég ítreka heimild, til að selja hlut í Landsbankanum. Það er hafinn undirbúningur að því hjá Bankasýslunni og það skiptir auðvitað öllu máli þegar við metum það hversu mikill sparnaður getur orðið, í mínum huga, hvaða verði er verið að tala út frá, hvaða verð sé mögulegt að fá fyrir þann 30% hlut sem mögulega yrði seldur.

Ég spyr hv. þingmann út í þær hugmyndir og hvaða hugmyndir hv. þingmaður hefur um að selja bankann eða ekki, þ.e. 30% hlut.