145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég var í raun og veru ekki að tala um að bankar ættu að gegna neinu félagslegu hlutverki heldur að þeir sinntu þjónustuhlutverki sínu gagnvart öllum landsmönnum.

Ég var líka að spyrja að því hvort arðsemiskrafan ætti þá að vera í takt við þær skyldur að sinna þeirri þjónustu sem landsmenn óskuðu eftir og það er kannski á þeim grunni.

Það eru auðvitað margar gerðir af bönkum í nágrannalöndum okkar og það eru bankar sem hafa umhverfissjónarmið að leiðarljósi og mörg önnur sjónarmið en einungis að hámarka arðsemina. Við lifum orðið í flóknum heimi og kapítalið hefur farið illa með hagkerfi okkar vítt og breitt um heiminn og þess vegna hafa sumir bankar lagt áherslu á annað en að hámarka arðinn.

Ég kalla eftir því hjá hv. þingmanni hvort hann sjái ekki að það geti verið bankastarfsemi sem stendur undir sér og skilar arði en hefur kannski önnur markmið, samfélagsleg markmið, að fólk geti haft möguleika á að eiga lánsviðskipti án þess að vera með klafa allt sitt líf og það séu umhverfissjónarmið í lánveitingu til fyrirtækja og einstaklinga og ýmislegt annað hvetjandi. Þetta væri í raun ný hugsun frá því sem var þegar þetta gamla harða kapítal réð ferðinni og það mátti ekkert annað vera.

Auðvitað má segja að sparisjóðir landsins hafi, eins og þeir voru reknir á síðustu áratugum, að hluta til verið með þessa hugsun, þótt umhverfissjónarmið hafi kannski ekki verið komin svo sterkt inn í (Forseti hringir.) sparisjóðina. En þeir fóru eins og þeir fóru.