145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:33]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu sem svipar nokkuð að efnistöku til fyrstu ræðu minnar sem ég hélt um fjárlagafrumvarpið í gær, þ.e. um yfirbragðið á umræðunni um frumvarpið af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, þingmanna og ráðherra.

Ef ég man rétt er þetta annað kjörtímabil hv. þm. Róberts Marshalls, búinn að sitja á þingi í sjö ár, og hann hefur þar fyrir utan fylgst með þingstörfum miklu lengur en það enda með mikla reynslu af starfi í fjölmiðlum og haft það nánast að atvinnu um tíma að fylgjast með þingstörfum. Ég hef líka fylgst með þingstörfum lengi og hef verið mikill áhugamaður um stjórnmál alla tíð, setið á þingi og komið hingað oft sem varamaður að auki, og ég man ekki eftir öðrum eins óróleika og öðru eins andrúmslofti í kringum fjárlagagerð og í haust, undanfarnar vikur og mánuði. Þar má nefna að forustufólk úr fjárlaganefnd hefur farið fram með ótrúlegum hætti gegn gestum og þeim sem hafa komið á fund nefndarinnar og einnig gegn stofnunum sem heyra undir fjármálaráðuneytið og heyra undir fjárlög o.s.frv., með hroka og yfirlæti.

Það er mitt mat og ég nefndi það í ræðu í dag eða í gær að þetta hafi skaðað þingið að því leytinu til að orðið hafi trúnaðarrof á milli þings og þeirra sem við þurfum að eiga samskipti við, ekki síst á sviði fjárlagagerðar. Það er ekki sama samtalið þarna á milli, ekki eðlilegt samtal. (Forseti hringir.) Er þingmaðurinn mér sammála um það í fyrsta lagi og í öðru lagi, hvað telur þingmaðurinn að valdi því að þessi framkoma er að koma upp núna eftir þó þessi óróleikaár sem voru frá hruni? Ég man ekki eftir öðru eins andrúmslofti og hefur verið í haust.