145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:36]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög góð spurning hjá hv. þingmanni og kannski ekki auðvelt að svara henni. En það er auðvitað þannig að einhvers konar átakalist í stjórnmálum og yfirlýsingar um eitthvað sem skiptir engu máli er miklu auðveldari taktík en það að vera einfaldlega vel inni í málunum og vera sammála um þær forsendur sem menn eru að ræða um og takast á um það.

Það er í raun og veru ákveðin aðferðafræði sem menn beita í stjórnmálum hér að koma frekar með blammeringar og fá svör sem eru í svipuðum dúr og geta þá sagt: Sko, þetta er bara pólitík, þetta er bara hefðbundið karp um pólitík, svona eru allir. Já, það getur vel verið að ég sé óheflaður og frakkur í minni framsetningu o.s.frv., en sjáið bara hina, þeir eru ekkert skárri. Það er auðvitað miklu einfaldara að vinna sína pólitík með þessum hætti, þá fá menn bara frið til að fara sínu fram og koma með sínar hugmyndir byggða á sinni pólitík án þess að þurfa að taka tillit til nokkurs annars.

En það væri miklu einfaldara, hreinna og betra og meira til farsældar fallið til lengri tíma og til framtíðar ef menn létu af þessum sið og reyndu að tala saman. En það er enginn vilji hjá núverandi hæstv. forsætisráðherra til að vinna svona. Hann hefur aldrei nokkurn tíma sýnt einn einasta sáttarvilja í þessum sal eða á vettvangi íslenskra stjórnmála. Það vita allir sem fylgst hafa með. Þetta er allt í þessum stíl, allt beint ofan í sandkassann. Þannig er það bara, því miður, og það er ömurlegt.