145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:38]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að ein afleiðing af þessu samtali, ef samtal er hægt að kalla, við þjóðina sé skrýtnar pólitískar áherslur sem má finna í nefndaráliti meiri hlutans og hv. þingmaður nefndi, m.a. að það skuli vera lagt af stað í ríflega 2 milljarða kr. byggingu við Alþingi samkvæmt 100 ára gamalli teikningu eftir Guðjón Samúelsson af heimavist sem átti að vera á allt öðrum stað, hún sé flutt hingað við þinghúsið og eigi að halda þar áfram. Ég held að það séu skrýtnar tillögur varðandi framkvæmdir við hafnargerð þar sem fjárlaganefnd ákveður að setja 400 millj. kr. og sáldra þeim út með óskilgreindum hætti til 11 staða. Ég held að það sé skrýtin tillaga sem er afleiðing af þessu að setja 50 millj. kr. í Háskólann á Bifröst til að koma í veg fyrir hugsanlegan hallarekstur á næsta ári. Það er hvergi minnst á Landspítalann í því sambandi.(Forseti hringir.)

Telur þingmaðurinn að það andrúmsloft sem er í stjórnmálunum af hálfu stjórnarflokkanna, fjárlaganefndar og ríkisstjórnar (Forseti hringir.) smiti út frá sér og verði að furðulegum tillögum og furðulegum áherslum í fjárlagagerðinni? Er þingmaðurinn sammála mér í því? Ég er nefnilega þeirrar skoðunar.