145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:39]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Allt er þetta angi af þeirri stjórnsýslu sem hæstv. forsætisráðherra hefur viljað stunda frá því að hann tók við völdum, allt frá því að geta fært heilu og hálfu málaflokkana eftir sínu áhugasviði inn til sín, jafn ömurleg stjórnsýsla og það er, og til þess að geta fært til lögregluumdæmi með einu pennastriki rétt fyrir breytingar eftir behag. Það er auðvitað ekki boðlegt. Við erum með ákveðið regluverk, ákveðin lög og ákveðna ferla og eigum að fylgja þeim. Það er þannig sem menn reka samfélög.

Ég hef ekki verið viðstaddur alla þessa umræðu en ég var að svipast um eftir því hvort búið væri að tryggja að útvarpsgjaldið héldist óbreytt til Ríkisútvarpsins. Mér sýnist að það eigi að lækka það samkvæmt þeim tillögum sem hér liggja frammi. Ég held að það sé þvert á það sem hæstv. menntamálaráðherra hefur boðað. Það hlýtur að eiga eftir að leiðrétta það eða (Forseti hringir.) einhvers staðar liggja tillögur um að koma því fram, ég hélt að það væri alveg skýrt. (Forseti hringir.) Kannski er það eitthvað sem hæstv. forsætisráðherra eða aðrir eru að reyna að koma í veg fyrir. Það væri mjög alvarlegt ef svo væri.