145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:41]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða og skilmerkilega ræðu. Mig langar til að drepa aðeins á eftirlitshlutverk Alþingis en ég sé í nefndaráliti meiri hlutans að þar er talað svolítið um íþyngjandi löggjöf. Það er kannski ekki farið beinum orðum um það en hægt er að lesa á milli línanna að það sé svolítið þannig að eftirlitsiðnaður sé slæmur. Þá er sérstaklega tekið til Fjármálaeftirlitið og umboðsmaður Alþingis. Fjárútlát í fjárlögum vegna Fjármálaeftirlitsins hafa aukist frá 2007 til 2016 um 203% á meðan fjárútlát vegna umboðsmanns Alþingis hafa aukist um 100%.

Í ljósi þeirra atburða sem áttu sér stað fyrir 2008, fyrir hrunið, var eitt af þeim meginverkefnum sem Alþingi var falið að efla eftirlitshlutverk Alþingis og skyldra stofnana, svo sem Fjármálaeftirlitsins og þeirra stofnana sem sinna eftirlitshlutverki í samfélagi okkar. Hvað finnst hv. þingmanni þegar þessar mikilvægu stofnanir eru settar í undirkafla sem heitir „Íþyngjandi löggjöf“, eins og hlutverk þeirra sé eitthvað slæmt? Þýðir þetta kannski að við séum að horfa aftur til þessara góðu tíma fyrir 2007 þar sem Fjármálaeftirlitið var svo gott sem svelt til bankahruns? Sjáum við kannski fram á að við þurfum bráðum að fara að skera niður þegar kemur að þessum svokallaða eftirlitsiðnaði?