145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:47]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta hefur auðvitað verið greint og skilgreint af stjórnmála- og þjóðfélagsrýninum Noam Chomsky sem sérstök aðferðafræði til að afhenda stofnanir einkaaðilum. Grafa undan þeim og gera fólk andsnúið þeim og reitt og þannig er hægt að halda áfram með einkavæðinguna. En í tilfelli umboðsmanns Alþingis verður maður að taka undir það álit sem kom frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í þessari viku. Það verður að tryggja nægt fjármagn fyrir stofnunina til að standa undir sínu hlutverki. Við höfum séð það á síðustu mánuðum og missirum hversu mikilvægt það er að hafa slíka stofnun sem getur verið sjálfstæð og sinnt sínu hlutverki af kostgæfni.