145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:48]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að það var undarlegt yfirbragð á ræðu hv. þm. Róberts Marshalls og það um fjárlögin. Í staðinn fyrir að fjalla raunverulega um fjárlögin þá var fyrst og fremst fjallað um það hvernig orðalag forsætisráðherra væri, hvernig andleg heilsa formanns fjárlaganefndar væri o.s.frv. Það var eiginlega ekkert um efni frumvarpsins.

Hv. þm. Róbert Marshall minntist nú á mig og taldi að ég væri að bera saman ósambærilegar aðstæður sem síðasta ríkisstjórn var í árið 2009 og núna, þegar ég flutti ræðu hér með miklum látum fyrir tveimur dögum eða svo. En ástæðan fyrir þeirri ræðu var einmitt þessi orðræða sem hv. þm. Róbert Marshall hafði svo miklar áhyggjur af, orðræða stjórnarandstöðuþingmanna um að við þingmenn meiri hlutans værum siðlausir og fullir af mannvonsku.

Það er að vissum hluta hægt að bera saman aðstæðurnar þá og nú. Mér finnst alveg ótrúlegt að menn sem voru í þeirri stöðu að fara í mikinn niðurskurð á þeim tíma, sem ég vissi að þurfti, niðurskurð á öllu, séu núna svona uppteknir af forgangsröðun í kringum heilbrigðiskerfið og lífeyriskerfið, því að maður hafði ekki á tilfinningunni að þeir væru það þegar sú stjórn var 2009. Menn skáru hlutfallslega meira niður í þessum málaflokkum sem eru svo mikilvægir núna og fóru í kostnaðarsamar aðgerðir kringum aðildarumsókn í ESB, kringum það að breyta stjórnarskránni, fara í grænt hagkerfi o.s.frv. (Gripið fram í.) Nei, í staðinn fyrir að bæta í lífeyriskerfið og spítalann þá var komið með margra milljarða króna hugmyndir um grænt hagkerfi í fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar vinstri meiri hlutans. Þannig var þetta.