145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta getur vissulega verið áhyggjuefni en var í svo hverfandi mæli þegar að var gáð að stórt áhyggjuefni var það ekki. Það væri þó sjálfsagt að reyna að mæta því, til að mynda með því að hafa einhverjar tekjur sem forsendu fyrir því að fólk greiddi skattinn eða afmarka það með öðrum hætti nánar.

Ég vil líka segja að ég hefði alveg talið vera málefnalegt ef stjórnarmeirihlutinn hefði ákveðið að framlengja auðlegðarskattinn sem lægri skatt en þegar hann tók við. Sannarlega gat hann bitið nokkuð í hjá afmörkuðum hópi, en að afnema hann með öllu á tímum sem þessum, í gjaldeyrishöftum, neyðarástandi í efnahagsmálum og þegar stjórnarþingmennirnir telja sig ekki eiga peninga fyrir Landspítalanum og fyrir aldraða og öryrkja, hef ég aldrei skilið.