145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað sjá auðlegðarskattinn halda áfram í breyttri mynd þannig að hann tæki raunverulega á fólki sem ætti miklar eigur og væri aflögufært um að borga skattinn. Ég hef heyrt eina hugmynd, að það hefði verið hægt að taka húsnæði einfaldlega út fyrir sviga og líta ekki á það sem eigur sem þyrfti að skattleggja með sérstökum hætti og þá hefði kannski verið komið í veg fyrir misrétti.

Mig langar að spyrja í síðara andsvari um tryggingagjaldið. Mér finnst mjög óréttlátt hvernig það hefur verið látið halda sér í nánast sömu prósentutölu frá því mikla atvinnuleysi sem var eftir hrun. Ég mundi vilja sjá það lækka. Það er sú skattalækkun sem ég held að sé einna brýnust í umhverfinu eins og það er, eða einna réttlátust. Deilir hv. þingmaður þeirri skoðun? Sér hann fyrir sér að hægt sé að lækka (Forseti hringir.) tryggingagjaldið? Hefði hann staðið að því ef hann væri núna í stjórnarmeirihluta og beðið þá kannski með aðrar skattalækkanir?