145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:46]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann rakti ágætlega í ræðu sinni þær miklu breytingartillögur sem hafa verið gerðar við fjárlagafrumvarpið síðan það kom fyrst fram og minntist einmitt á 1,2 milljarða kr. breytingartillöguna sem gleymdist.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að fyrr í dag var skrifað undir samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsramma vegna þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Þar er í 6. gr. fyrirvari um samþykkt Alþingis þar sem talað er um að samkomulagið sé gert með fyrirvara um að Alþingi samþykki nauðsynlegar lagabreytingar og breytingar á fjárlögum. Þýðir þetta að við eigum von á enn meiri breytingum nú þegar við ættum í rauninni að vera komin heim í frí?