145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:49]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svarið. Mér er svolítið hugleikið hvernig við sem samfélag ætlum að fjármagna rekstur samfélagsins. Mér virðist vera ákveðin nauðhyggja eða eitthvað í gangi þegar er verið að fella niður skatta eða framlengja þá ekki. Sú hugmynd virðist hafa verið uppi, sérstaklega hjá hægri mönnum, að það sé alltaf hægt að bregðast við öllu með því að auka umsvifin og auka veltuna og þá einhvern veginn hrynji eitthvað niður til þeirra sem minna hafa.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er það hugsunarháttur sem við getum leyft okkur? Er það hugsunarháttur sem við getum leyft okkur á 21. öldinni þegar allir helstu ráðamenn heimsins eru saman komnir í París til að takast á við loftslagsbreytingar? Verðum við ekki einmitt að hugsa um það hvernig við skiptum því sem við höfum nú þegar jafnar (Forseti hringir.) þar sem hinir efnameiri verða að leggja meira til (Forseti hringir.) samfélagsins því að við getum ekki alltaf stækkað kökuna?