145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:52]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ræðuna. Hv. þingmaður ræddi um hagsveifluna og um það vil ég segja að auðvitað var engin venjuleg hagsveifla hér, hið skarpa hrun sem varð og í raun og veru allt sem gerðist hér, þau áföll sem dundu á öllum og öllu hagkerfinu. Það þurfti að taka á mjög mörgum þáttum til að komast út úr því. Við erum enn að vinna okkur í gegnum það til að bæta hér grunnþjónustuna.

Hv. þingmaður talaði mikið um að við værum að afsala okkur tekjum. Varðandi ferðaþjónustuna vil ég segja að ferðamaðurinn er mjög verðnæmur gagnvart kjarnaþjónustunni, fluginu, gistingunni og bílaleigum svo að ég taki dæmi. Það er kjarnaþjónusta og við eigum auðvitað að styðja við atvinnugreinar okkar í uppbyggingu og vexti, sem eru mjög mikilvægar, t.d. útflutningsatvinnugreinar. (Forseti hringir.)

Hv. þingmaður nefndi jafnframt tekjuskattskerfið. Ég spyr: Skildi ég hv. þingmann rétt að hann teldi þá vegferð (Forseti hringir.) að lækka hér tekjuskatt og auka kaupmátt leiða til ójöfnuðar?