145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins um ferðamennina. Það er von að hv. þingmaður reyni að bera í bætifláka þar sem það blasir við hverjum manni að ríkisstjórnin hefur verið algerlega duglaus að taka tekjur af ferðamönnum allt þetta kjörtímabil. Það er vel hægt. Það var afstaða Icelandair á síðasta kjörtímabili, þekki ég sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar, að verðnæmið væri í flugmiðanum en ekki í hótelinu eða bílaleigunni. Þeir ættu að þekkja það, þeir eru umfangsmestir í fluginu, í hótelunum og í bílaleigunum. Þeir lögðu áherslu á að það væri miðinn sem væri það sem hefði áhrif á fjöldann sem hingað kæmi fyrst og fremst, þar lægi verðteygnin.

Lækkun á tekjuskatti, þar skiptir öllu máli hverjir njóta þeirrar lækkunar. Hún hefur verið hönnuð þannig að við þingmenn og þeir sem eru í okkar tekjuhópi hafa notið hennar best. (Forseti hringir.) Það held ég að efli ekki jafn vel lífskjör og hagvöxt og að lækka skatta á þá sem hafa meðaltekjur og lægri tekjur.