145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:17]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Við deilum því að hafa áhyggjur af stöðu umboðsmanns Alþingis, ekki bara af því að verið er að skera niður núna á þeirri forsendu að hann þurfi ekki að borga húsaleigu heldur líka því, eins og hv. þingmaður kom inn á, að málshraðinn sé ekki nægilegur og það vanti kannski fjármuni til að fara í frumkvæðisrannsóknir.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort fólk almennt og margur hver átti sig á því hvenær hægt er að leita til umboðsmanns og jafnvel hvort þingmenn átti sig á því líka hvað umboðsmaður raunverulega gerir og fyrir hverja. Nú er komið fram, eins og hv. þingmaður var að vitna í, nefndarálit frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um skýrslu umboðsmanns Alþingis. Ég hvet þingmenn til að lesa það, þá sem ekki hafa gert það eða sitja ekki í þeirri nefnd, því að þar kemur ýmislegt fram sem vert er að skoða. Ég hef verið í hópi sem snýr að neytendamálum og þar hefur mikið verið fjallað um úrskurðarnefndir, alls konar úrskurðarnefndir. Við erum að minnsta kosti tvö í salnum nú sem höfum setið í nefnd og fjallað um úrskurðarnefndir og hvort megi sameina þær eða ekki.

Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hún geti komið með eitthvert dæmi um frumkvæðismál sem hún veit að umboðsmaður hefur tekið upp og rannsakað og hvort hún viti um atvik sem hefur orðið til þess að einhver hefur fengið máli hreinlega snúið, mikilsverðu máli er varðar bætur eða eitthvað slíkt.