145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:29]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Mér finnst kristallast svolítið í þessu sú heimspeki sem var bundin hér við íslenska pólitík á tíunda áratugnum og fyrsta áratug 21. aldar, að ríkið ætti að búa til regluverk sem væri auðvelt í meðhöndlun fyrir fyrirtæki.

Ég lít ekki svo á að Alþingi sem löggjafi eða löggjafar almennt eigi að vera í einhverju sérpoti með atvinnulífinu. Það á að búa til regluverk í kringum atvinnulífið. Það á að búa til regluverk sem verndar í raun og veru einstaklinginn fyrir atvinnulífinu. Það er ástæðan fyrir því að við erum með Matvælastofnun, Jafnréttisstofu, Mannvirkjastofnun, Lyfjastofnun. Hvað gerðist t.d. í Kína þar sem var gler í barnamat og fleira því um líkt? Mér þykir mjög alvarlegt að það sem kemur fram hérna þar sem tekið er sérstaklega fram að rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins hafi tvöfaldast á tímabilinu. Það er tekið fyrir í löngu og ítarlegu máli í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hvernig Fjármálaeftirlitið var beinlínis fjársvelt til að draga úr íþyngjandi eftirliti með bönkunum. Þetta eftirlit er ekkert íþyngjandi. Þetta eftirlit er alveg bráðnauðsynlegt fyrir heilbrigt bankakerfi til að lifa í bankasamfélagi. Hvað kom á daginn? Jú, aðstoðarseðlabankastjóri Lúxemborgar flaug til Íslands til að skamma seðlabankastjóra og bankastjóra Íslands af því að þeir brutu lög, þeir brutu almenn velsæmisviðmið bankakerfisins og það var allt saman undir Fjármálaeftirlitinu.